Þeir vísindamenn sem vinna hvað mest í bransanum eru sammála um það að besta fyrirkomulagið þegar kemur að skaðlegum vímuefnum er neyslustýring, þ.e. að hafa þau lögleg en að ekki sé hægt að nálgast þau hvar og hvenær sem er. Það er það fyrirkomulag sem við höfum í dag hvað varðar áfengið; það er löglegt, en þú færð það samt ekki úti í næstu matvörubúð. Það er akkúrat fyrirkomulagið sem gögn sýna að beri hvað bestan árangur til skaðaminnkunar.

Eins og staðan er í dag er aðgengi að ólöglegum vímuefnum alveg frábært. Til að breyta því þyrfti að regluvæða vímuefni, en með því myndi markaðurinn færast inn í hið opinbera og efnin yrðu seld í sérbúðum, ávísað af læknum eða seld í apótekum.

Afglæpavæðing mun því miður ekki gera þetta. En afglæpavæðing mun hins vegar breyta heilmiklu, því að hætt yrði að gera veikt fólk að glæpamönnum, bara fyrir það að nota efni sem það er háð, og ekki síður vegna þess að eins og staðan er í dag, þá tekur löggan neysluskammt af fólki sem hefur oft lagt á sig ómælt erfiði til að útvega sér skammtinn sinn – og verður fárveikt ef það ekki fær hann. Þegar það gerist þá þarf sama fólk að fara aftur út og finna einhverja leið til að eiga fyrir nýjum skammti, og þegar fólk er svona veikt þá þýðir það oft að skammturinn er fjármagnaður með glæpsamlegum leiðum – innbrotum, vændi eða ólöglegri sölu á einhvers konar öðrum efnum.

Reynsla annarra landa hefur sýnt að bara við að taka á þessum galla í kerfinu þá stendur fólk ekki jafn höllum fæti. Það hefur möguleika á því að fara að treysta kerfinu í stað þess að óttast það, sækja sér hjálp, og við það hefur neysla vímuefna í þeim löndum sem hafa afglæpavætt minnkað, ásamt því að glæpir og vændi minnka líka.

Annað sem afglæpavæðing hefur gert í þeim löndum sem hafa farið þá leið er að dauðsföll þeirra sem látast af ofskömmtum vímuefna hríðfalla og oftast hverfa algjörlega. Hér á landi látast 30-40 ungmenni af völdum ofskömmtunar á ári hverju, sem er óvenju hátt hlutfall miðað við aðrar þjóðir. Við höfum tækifæri á því að á árinu 2020 verði þessi tala jafnvel alveg horfin. Allar þær fjölskyldur sem nú eiga um sárt að binda vegna ungmennis sem hvarf of snemma. Það er til mikils að vinna að þær verði ekki fleiri.

Við mælum annars með bókinni “Að hundelta ópið” sem kom út í íslenskri þýðingu núna fyrir skömmu og fæst í öllum helstu bókabúðum. Hún er virkilega áhugaverð og spennandi aflestrar, og fjallar um fíknistríðið. Hún fer vel yfir þann skaða sem bannstefnan hefur valdið, einstaklingum, fjölskyldum, samfélögum og heilu löndunum. Endilega kíktu á hana! 

 

Textinn er svar Snarrótarinnar til lesanda á Facebook sem langaði að heyra frá fyrrverandi fíklum varðandi hugmyndir að breytingu frá refsistefnunni sem hefur verið við lýði í áraraðir.  Sjá komment við færslu Snarrótarinnar 21. nóvember 2019.

Fréttabréf Snarrótarinnar

Skráðu þig á póstlistann og fáðu fréttir og tilkynningar um viðburði.

Netfangið þitt er trúnaðarmál og er ekki gefið öðrum. Þú getur skráð þig af listanum hvenær sem er.