Fíknistríð eða mannúðarstefna?

Valkostir í fíknivörnum

 

Áratugum saman hafa íslensk stjórnvöld háð stríð gegn eigin borgurum. Borgurum sem brotið hafa lög númer 65 frá 1974 með síðari breytingum. Lög um ávana- og fíkniefni. Bannlög sem reynst hafa haldlaus, ranglát og skaðleg. Mál er að linni.

Bannlögin eru haldlaus

Hin forboðnu efni voru óþekkt á Íslandi þegar þau voru bönnuð, rétt fyrir 1970. Þingmenn töldu rétt að byrgja brunninn áður en barnið félli í hann. Banna efnin til að afstýra því að þau bærust til landsins og kæmust í hendur fólks.

2 milljarðir árlega í að viðhalda fíkniefnalöggjöfinni

Er fíkniefnastríðið að syngja sitt síðasta? Vaxandi hópur fólks í öllum stéttum sér ekki fram á að bannhyggjan, refsi- og útskúfunarstefnan sé að skila neinum árangri. Nýlegt mat bendir til þess að refsivörslukerfið á Íslandi verji hátt í tveimur milljörðum króna árlega í að halda fíkniefnalöggjöfinni til streitu. Rétt er að hafa þann kostnað í huga þegar árangurinn er metinn.

Öll neysla ólöglegra efna á Íslandi er tilkomin eftir að þau voru bönnuð. Bannið reyndist haldlaust með öllu. Engu að síður halda menn því til streitu með ærnum tilkostnaði.

Í þá fánýtu iðju sóa stjórnvöld tveimur milljörðum króna árlega og engu að síður flýtur allt í dópi að sögn lögreglu og fjölmiðla.

Nýlegar rannsóknir benda til þess að nær þriðji hver fullveðja Íslendingur hafi brotið lög um ávana og fíkniefni, einu sinni eða oftar á lífsleiðinni.

Fólk úr öllum stéttum samfélagsins; sjómenn og bændur, læknar og lögfræðingar, alþingismenn og ráðherrar, lögreglumenn og dómarar, hægri menn og vinstri menn, fátæklingar og auðmenn, guðsmenn og heiðingjar.

Hann yrði fríður flokkurinn ef allir þeir sem brotið hafa lög númer 65 frá 1974 yrðu leiddir fyrir dómara.

Þúsundir brjóta bannlögin meira og minna reglulega. Jafnvel tugþúsundir. Fróðir menn telja að markaðurinn með ólögleg vímuefni velti milljörðum árlega. Sumir segja tíu til fimmtán millljörðum, aðrir nefna enn hærri tölur.

Glæpamenn velta ámóta miklu á svörtum, skattfrjálsum markaði og áfengisverslun ríkisins, og jafnvel meira. Þrátt fyrir áratuga bann, forvarnir, meðferðarkerfi og reglubundin siðfár í fjölmiðlum er þetta staðan.

Bannlögin eru haldlaus og það ber að afnema þau.

Bannlögin eru ranglát

Einungis lítill hluti þeirra sem brjóta gegn bannlögunum kemst undir mannahendur. Engu að síður eru mörg hundruð ungmenni stimpluð og dæmd fyrir smávægilegustu brot á þeim.

Dæmi eru um að þurft hafi flóknar efnafræðirannsóknir til að sanna að tóbaksmylsna á bílgólfi hafi komist í snertingu við ólöglegt efni. Það er smátt sem hundstungan finnur ekki.

Ungmenni sem komast í kast við bannlögin eru úthrópuð sem glæpamenn, þau eru rekinn úr vinnu og jafnvel hrakin úr húsnæði.

Mannorði þeirra er spillt og leið þeirra til baka inn í samfélag hinna syndlausu er torvelduð. Hatursáróður gegn brotafólki á þessu eina sviði mannlífsins er liðinn og nýtur velþóknunar.

Bannlögin eru ranglát vegna þess að það er engin leið að framfylgja þeim án eineltis gegn ungu fólki og sjúku.

Ökuníðingar og drykkjurútar eru ekki svertir og stimplaðir á sama hátt og það unga fólk sem gripið er með ögn af ólöglegum efnum í fórum sínum.

Tilefnislaus leit er daglegt brauð, ungu fólki er gert að tæma vasana að tilefnislausu, það má búast við húsleit eða leit í bifreið af minnsta tilefni.

Ungt fólk býr í lögregluríki sem við sem eldri erum sjáum hvorki né heyrum.

Annar hópur sem bannlögin leika grátt eru fíknisjúkir, einkum sprautufólkið. Það er hundelt og hrakið, efni og áhöld eru rifin af því og það látið þjást í eymd og útskúfun.

Bannlögin eru ranglát vegna þess að það er engin leið að framfylgja þeim án mannréttindabrota og eineltis gegn ungu fólki og sjúku. Þau eru ranglát vegna þess að þau refsa fáum í samfélagi sem er gegnsýrt af vímuefnum, einkum áfengi.

Það er í senn grátlegt og hlálegt að haugblautir embættismenn, frá lögreglu til Hæstaréttar, handtaka, dæma og refsa fólki fyrir að kjósa önnur vímuefni en brennivín.

Bannlögin eru ranglát og það ber að afnema þau.

Bannlögin eru skaðleg

Lágmarka skaða af völdum vímuefnaneyslu í stað þess að reyna að uppræta hana með öllu

Annar sjónarhóll í fíknivörnum hefur notið vaxandi fylgis síðustu ár. Frá þeim sjónarhóli leita menn leiða til að lágmarka skaða af völdum vímuefnaneyslu í stað þess að reyna að uppræta hana með öllu. Á íslensku hefur þetta viðhorf verið kallað skaðaminnkun.

Engin leið er að sanna að bannlögin hafi dregið úr neyslu ólöglegra vímuefna eða minnkað tjón af þeirra völdum.

Fullyrðingar í þá veru eru skrum og hugarburður. Það má hins vegar færa að því gild rök að þau hafi valdið einstaklingum og samfélagi miklu tjóni.

Lögmálið um forboðna ávöxtinn hefur freistað ungra uppreisnarmanna til að prófa ólögleg vímuefni og storka með því reglum samfélagsins.

Nýlegar rannsóknir sýna að þau ungmenni sem fara á annað borð út af hinum þrönga vegi dyggðarinnar verða harðar úti nú en fyrr. Böl þeirra er í réttu hlutfalli við offors bannhyggjupáfanna.

Bannhyggjan kom í veg fyrir að heilbrigðisyfirvöld beittu alþjóðlega viðurkenndum aðferðum til að afstýra HIV-faraldri meðal sprautufólks.

Ég hef áður rakið hvernig sá meðvitaði aulaháttur orsakaði sóðalegasta HIV-faraldur sem sést hefur í Vestur-Evrópu um árabil.

Bannhyggjan hefur fyllt íslensk fangelsi af fólki sem í flestum tilfellum á við geðræn vandamál að stríða, auk vímuvandans. Geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga er í molum og hefur verið það lengi.

Fíknisjúkir framtíðarinnar koma að stórum, kannski stærstum hluta, úr hersveit hinna ungu tapara sem skóla- og heilbrigðiskerfi veitir steina fyrir brauð.

Útskúfunar- og refsihyggjan hefur blindað okkur og komið þeirri flugu í munn okkar að unnt sé að uppræta ólögleg vímuefni. Það er grátlegt rugl.

Á tveimur til þremur áratugum hefur Íslendingum tekist að koma upp lífshættulegum sprautukúltúr sem stenst fyllilega samanburð við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar.

Sjö hundruð manns sprauta sig meira og minna reglulega, ef marka má nýleg blaðaskrif.

Rétta leiðin er að lögvæða markaðinn og skattleggja hann. Rífa hann úr höndum glæpamanna og koma honum í svipaðan farveg og nú tíðkast með áfengi og tóbak.

Bannlögin eru lífshættuleg og það ber að afnema þau.

Aðrar leiðir eru færar

Útskúfunar- og refsihyggjan er ekki lögmál. Það er unnt að feta sig til baka og snúa ofan af þeirri ógæfulegu bannhyggju sem hér hefur riðið röftum, öllum til tjóns og skaða.

Rétta leiðin er að viðurkenna að bannlög sem ekki halda og ekki er unnt að framfylgja enda í fullkominni lögleysu. Hinn umfangsmikli skattfrjálsi markaður með ólögleg efni sannar það. Á honum gilda lögmál glæpamanna sem einskis svífast.

Það er fullkomlega óskiljanlegt hvers vegna stjórnmálamenn hanga eins og hundar á roði á rangri og háskalegri stefnu.

Stefnu sem gerir þá í raun að bestu vinum og bandamönnum glæpahyskisins sem þeir telja sig vera að berjast gegn.

Lögreglan framfylgir einkarétti glæpamanna til að selja ólöglegu efnin af fullri hörku. Bannlög sem ekki halda snúast upp í vörn fyrir glæpalýðinn.

Rétta leiðin er að lögvæða markaðinn og skattleggja hann. Rífa hann úr höndum glæpamanna og koma honum í svipaðan farveg og nú tíðkast með áfengi og tóbak. Aðhaldssamt regluverk og skattlagning eru bestu aðferðirnar til að snúa blaðinu við.

Tökum dæmi

Kannabissala ríkisins

Framleiðum úrvals kannabis í samvinnu við garðyrkjumenn, skattleggjum það og seljum í Vínbúðum.

Við sóum tveimur milljörðum árlega í refsivörslukerfið til að viðhalda gagnslausum bannlögum. Skerum þann kostnað niður um helming. Þá erum við komin með einn milljarð.

Framleiðum úrvals kannabis í samvinnu við garðyrkjumenn, skattleggjum það og seljum í Vínbúðum.

Segjum að skatttekjur af þeirri sölu nemi fjórum milljörðum – það er ágiskun útfrá þeim tölum sem nefndar hafa verið um umfang markaðarins.

Seljum erfiðari efnin í lyfjabúðum, samkvæmt aðhaldssömu regluverki, og reiknum ekki með hagnaði af þeirri sölu.

Ef um slíkt er að ræða er honum best varið í þjónustu og ráðgjöf við þá sem þangað sækja.

Engu að síður er varlega áætlað að við gætum haft fimm milljarða til ráðstöfunar vegna sparnaðar í refsivörslukerfinu og skatts af kannabissölu.

Þeim peningum er betur varið í heilbrigðisþjónustu við börn og unglinga og endurbætur í menntakerfinu.

Við getum bylt þjónustu okkar við ungt fólk og fíknisjúkt til hins betra ef við kjósum lögvæðingu og mannúð. Hættum að gefa glæpamönnum peninga.

Hugsið málið, kæru landsmenn, hvora leiðina kjósum við, fíknistríð eða skaðaminnkun og mannúðarstefnu?

Pétur Þorsteinsson er fyrrverandi skólastjóri, lengst af á Kópaskeri. Áhugamaður um uppeldismál, afbrotafræði og mannúðlegt samfélag. Pétur var formaður Snarrótar – Samtaka um skaðaminnkun og mannréttindi frá 2014 til 2019.