Lögvæðing kannabis

Kannabis: Tekjustofn fyrir glæpamenn eða ríkið?

Jónas Kristjánsson bloggari og fyrrverandi ritstjóri er meðal þeirra sem vilja að íslenska ríkið þjóðnýti ágóðann sem fæst með sölu ólöglegra vímuefna á Íslandi. ,,Fíkniefnamarkaðurinn á Íslandi,“ segir hann, ,,nemur um tíu milljörðum króna á götunni á ári“.

Um er að ræða svartan markað, sem skilar engum sköttum og borgar engin opinber gjöld til samfélagsins. Stærsti hluti þessarar upphæðar kemur til vegna viðskipta með kannabis (hass og maríúana), enda vinsælasta ólöglega vímuefnið á Íslandi.

Að mati Jónasar er betra að ríkið taki yfir ólöglega markaðinn eins og löglega áfengið. Selji kannabis í vínbúðum. Tryggi um leið gæði efnanna og sjái um áritunarskyldu harðari fíkniefna, eins amfetamíns og kókaíns.

Það eykur fíkniefnavandann tæpast nokkuð að hans mati, en afnemur vanda, sem tengist glæpaklíkum. Þær þurrkast út á einu bretti, ef fíkniefnasalan verður þjóðnýtt.

Ríkið nær markaðinum með því að bjóða efnin á 70% af götusöluverði. Þýða sjö milljarðar í kassann á ári.

segir Jónas Kristjánsson.

Ýmiss gögn eru til marks um að hann, eins og fleiri lögvæðingarsinnar, hafi lög að mæla. Þannig er ekkert sem bendir til að neysla vímuefna – sem núna eru ólögleg – aukist að neinu marki þótt þeim verði búið frjálslyndara lagaumhverfi.

Er lögleiðing besta fíkniefnavörnin?

Varsla lítils magns af kannabis er lögleg í Hollandi. Öllum sem náð hafa átján ára aldri er heimilt að kaupa og neyta kannabisefna í sérstökum kaffihúsum sem lúta eftirliti yfirvalda.

Öfugt við það sem margir óttuðust hefur sala kannabisefna í ríflega 750 kaffihúsum vítt og breitt um landið ekki valdið umtalsverðri aukningu á kannabisneyslu ungs fólks.

Fjöldi þeirra sem hafa prófað kannabis, eða neyta þess jöfnum höndum, er sambærilegur og í mörgum tilvikum minni í Hollandi en hjá öðrum Evrópuþjóðum sem fylgja mun strangari stefnu í fíkniefnamálum.

Ber að lögleiða kannabisefni?

Bann við framleiðslu og sölu ákveðinna vímugjafa skapar menningarkima sem hefur fjárhagslegan ávinning af núgildandi lögum um ávana- og fíkniefni. Innflytjendur og dreifingaaðilar ólöglegra vímugjafa mynda neðanjarðarhagkerfi sem veltir milljörðum. Lögleiðing fíkniefna og sala þeirra undir umsjón opinberra aðila myndi hnekkja veldi þeirra sem ráða fíkniefnamarkaðinum. Ef opinberir aðilar önnuðust sölu fíkniefna væri hægt að skattleggja viðskiptin, en fíkniefnasala er nú á dögum stærsta óskattlagða atvinnugreinin í heiminum. Skatttekjum af sölunni mætti síðan nota til þess að standa straum af endurhæfingu þeirra sem misnota efnin og öðrum kostnaði sem samfélagið ber af neyslunni.

Í skýrslum Evrópusambandsins (EMCDDA) kemur fram að hlutfallslega fleiri á aldrinum 15-34 ára neyta kannabisefna í Austurríki, Englandi, Spáni, Frakklandi, Þýskalandi og Danmörku heldur en í Hollandi.

Stórneytendur kannabisefna meðal 15 ára ungmenna eru að sama skapi hlutfallslega færri í Hollandi en í Englandi, Spáni, Belgíu, Skotlandi, Frakklandi, Írlandi, Slóveníu og Þýskalandi.

Ávinningur af stefnu hollenskra stjórnvalda er einnig augljós þegar kemur að neyslu sterkari efna. Verulega hefur dregið úr nýliðun í hópi heróínneytenda í Hollandi, en hún er hvergi minni miðað við öll önnur lönd Evrópusambandsins.

Hollendingar eru í hópi þjóða þar sem sprautuneysla er með því minnsta á meginlandi Evrópu. Þannig hefur neysla heróíns og misnotkun örvandi efna dregist saman í Hollandi s.l. áratug á sama tíma og hún hefur vaxið í löndum eins og Danmörku, Lúxemborg, Finnlandi, Svíþjóð, Bretlandi og Noregi.

Í ljósi þess að Íslendingar líta gjarnan á Svía sem fyrirmynd í þessum málaflokki er vert að geta þess að þar í landi eru hlutfallslega helmingi fleiri misnotendur sterkra fíkniefna en í Hollandi.1

Sömu sögu er að segja af Portúgal. Árið 2001 ákváðu stjórnvöld að afnema refsingu fyrir vörslu neysluskammta af kannabisi, kókaíni og heróíni. Síðan eru liðin rúm 10 ár. Hver hefur árangurinn verið? Neysla efnanna hefur ekki aukist. Öðru nær. Hún hefur dregist saman!

Könnun sem var gerð árið 2006 sýndi að neysla portúgalskra ungmenna á aldrinum 15-19 ára dróst saman á efnum eins og kannabisi, kókaíni, heróíni, e-töflum, LSD og skynörvandi sveppum.

Í skýrslu sem fjallar um breytingar á fíkniefnalöggjöf Portúgala segir:

None of the parade of horrors that decriminalization opponents in Portugal predicted, and that decriminalization opponents around the world typically invoke, has come to pass. In many cases, precisely the opposite has happened, as usage has declined in many key categories and drug-related social ills have been far more contained in a decriminalized regime …

Since decriminalization, lifetime prevalence rates (which measure how many people have consumed a particular drug or drugs over the course of their lifetime) in Portugal have decreased for various age groups. For students in the 7th–9th grades (13–15 years old), the rate decreased from 14.1 percent in 2001 to 10.6 percent in 2006.

For those in the 10th–12th grades (16–18 years old), the lifetime prevalence rate, which increased from 14.1 percent in 1995 to 27.6 percent in 2001, the year of decriminalization, has decreased subsequent to decriminalization, to 21.6 percent in 2006.

For the same groups, prevalence rates for psychoactive substances have also decreased subsequent to decriminalization. In fact, for those two critical groups of youth (13–15 years and 16–18 years), prevalence rates have declined for virtually every substance since decriminalization.2

Nú er svo komið að í Portúgal eru 50% og í sumum tilvikum 75% minni líkur á því að fólk á aldrinum 15-64 ára neyti kannabis en í flestum öðrum ríkjum Evrópusambandsins.

Kannabisneysla í Portúgal er með minnsta móti miðað við ríki Evrópusambandsins, eins og sést á kökuritinu hér fyrir neðan:

Lögvæðing kannabis - Snarrótin


Heimild: Instituto da Droga e da Toxicodependência de Portugal (Stofnun um vímuefni og fíkn í Portúgal), Draft 2007 Annual Report, skyggna 9. Sjá nánar , bls. 21.

Svipaða sögu er að segja um neyslu kókaíns í Portúgal. Þar er hún aðeins brot (0,9%) af því sem þekkist í löndum eins og Bretlandi (6,1%), Eistlandi (5,9%), Ítalíu (4,6%), Hollandi (3,6%), Þýskalandi (3,2%), Noregi (2,7%) og Danmerkur (2,5%).3

Í Bandaríkjunum er áætlað 16,2% þjóðarinnar hafi prófað kókaín einu sinni eða oftar á ævinni. Bandaríkjamenn slá einnig heimsmet í neyslu kannabis en yfirvöld þar áætla að 42,4% þjóðarinnar hafi neytt þess.

,,Miðað við gefin gögn má sjá að jafnvel þó að kannabisefni væru lögleidd væri fjöldi stórneytenda kannabisefna aðeins örlítið brot af öllum þeim sem þjást af áfengisvanda á Íslandi. Því er erfitt að skilja rökfræði yfirvalda fyrir þvi að heimila áfengisnotkun en banna neyslu kannabisefna.”

Það er því undarlegt hvers vegna Bandaríkjamenn telja sig vera þess umkomna að leiðbeina öðrum þjóðum hvernig draga megi úr neyslu ólöglegra vímuefna.

Þá er umhugsunarvert afhverju íslensk stjórnvöld leita til Bandaríkjamanna um ráðgjöf í þessum málaflokki í stað þess að taka mið af stefnumótun Evrópuþjóða, einkum Hollendinga og Portúgala, sem hafa náð mun betri árangri í fíkniefnavörnum.

Kostnaðurinn við íslenska fíkniefnastríðið

Í lokaverkefni Önnu Guðrúnar Ragnarsdóttur við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands, Lögleiðing kannabisefna – Hagfræðileg greining, er áætlað að ef kannabis yrði lögleitt á Íslandi myndi fjölgun einstaklinga sem prófuðu kannabisefni vera 3,87%.

Rannsóknin bendir til að það yrðu helst ungir, efnalitlir en menntaðir reykvískir karlar sem líklegastir væru til að prófa kannabisefni væru þau lögleg.

Hún segir um þessa áætluðu fjölgun kannabisneytenda:

Hlutfall landsmanna sem prófar kannabisefni verður þar með komi upp í um 28,87% eða um 58.983 einstaklingar. Ef við gefum okkur að 18,9% þeirra neyti kannabisefna reglulega og að 6,6% af þeim verði stórneytendur kannabisefna [samkvæmt könnun Lýðheilsustöðvar (2003) og áætlun SÁÁ] jafngildir það um 736 einstaklingum eða um 0,36% landsmanna árið 2003.

Samsvarandi niðurstöður fyrir árið 2008 eru að 65,991 einstaklingar muni prófa kannabisefni í stað 57.145 einstaklinga og er aukningin því 8.846 einstaklingar. Ætla má að stórneytendur kannabisefna verði þá um 823 talsins eða tæp 0,36% landsmanna.4

,,Miðað við gefin gögn má sjá að jafnvel þó að kannabisefni væru lögleidd væri fjöldi stórneytenda kannabisefna aðeins örlítið brot af öllum þeim sem þjást af áfengisvanda á Íslandi,” segir Anna Guðrún. ,,Því er enn erfitt að skilja,” bætir hún við, ,,rökfræði yfirvalda fyrir þvi að heimila áfengisnotkun en banna neyslu kannabisefna.”

Henni finnst margt benda til þess að það kunni að vera þjóðhagslega hagkvæmt að leyfa sölu og notkun kannabisefna. ,,Því er eðlilegt,” segir Anna Guðrún, ,,að stjórnvöld taki það til skoðunar hvort lögleiðing kannabisefna kunni að vera hagkvæmari þjóðfélagslega séð heldur en núgildandi bann.”

Ber að lögleiða kannabisefni?

Lítil hætta er á því að lögleiðing kannabisefna verði til þess að auka neyslu þeirra til frambúðar. Það sýndi sig í þeim ríkjum Bandaríkjanna sem leyfðu neyslu á maríúana á áttunda áratugnum að neyslan þar jókst hlutfallslega ekki meira en í þeim ríkjum þar sem efnið var ólöglegt. Í Hollandi þar sem sala kannabisefna er háð litlum takmörkunum hefur neysla efnanna, þvert ofan í allar væntingar, ýmist staðið í stað undanfarin ár eða farið minnkandi, einkum meðal ungs fólks. Í þessu sambandi er vert að benda á að kannanir á kannabisneyslu meðal skólanema í Reykjavík hafa sýnt að hún er engu minni hér á landi en hjá portúgölskum ungmennum, sem hafa þó árum saman haft frjálsan aðgang að efnunum á miklu lægra verði.

Jónas Kristjánsson áætlar að fíkniefnamarkaðurinn nemi um 10 milljörðum á ári. Jóhannes Stefánsson lögmaður álítur að andvirði sölu ólöglegra vímuefna á Íslandi kunni jafnvel að vera meira.

Í BA verkefni sínu við lagadeild Háskóla Reykjavíkur, – Refsistefna í fíkniefnalöggjöf: blessun eða böl? – bendir hann á að árið 2006 hafi löggæsluyfirvöld lagt hald á fíkniefni sem áætluð voru á götuvirði um 16.000 kr. á hvern íbúa hér á landi.

Jóhannes segir:

Miðað við þær forsendur að haldlagningar löggæsluaðila séu áætlaðar 5-15% af heildarmagni efna má gera ráð fyrir því að ólögleg efni í umferð árið 2006 hafi því verið að andvirði á bilinu kr. 106.666 til kr. 320.000 á hvern Íslending, eða samtals að heildarvirði á bilinu 32 milljarðar til 96 milljarðar króna árið 2006.5

Jóhannes telur þó rétt að gera fyrirvara við þessa útreikninga, en engin vissa er um það hversu hátt hlutfall efna var í raun haldlagt og gæti verðmæti hinna ólöglegu efna verið minna. Ef rétt reynist, eru tölurnar að hans mati nokkuð sláandi og þó að þær væru talsvert lægri.

Eðli málsins samkvæmt er erfitt að meta hversu háar upphæðir skipta um hendur á hinum ólöglega íslenska fíkniefnamarkaði. Kostnað hins opinbera við eftirfylgni laga um fíkniefni má aftur á móti meta nærri lagi.

Í BA ritgerð í hagfræði við Háskóla Íslands (2011) eftir Júlíu Birgisdóttur kemur fram að refsivörslukerfið á Íslandi verji hátt í tveimur milljörðum króna árlega í að halda fíkniefnalöggjöfinni til streitu.

Þar segir:

Framlög hins opinbera 2009 til embættanna sem voru til rannsóknar voru samtals 11.824.650.838 kr. Hæst var framlag til lögregluumdæma eða 6.175.096.853 kr. Lægst voru framlög hins opinbera til Hæstaréttar eða 104.400.000 kr. Metið hlutfall verkefna vegna fíkniefnamála var hæst hjá Fangelsismálastofnun eða 29,6% en lægst hjá Hæstarétti eða 4,4%.

Hlutfall á verkefnum vegna fíkniefna hjá öllum embættum samtals var metið 14,4% af heildarverkefnum. Heildarkostnaður hins opinbera vegna fíkniefnamála árið 2009 var hæstur hjá lögreglunni eða 494.406.214 kr. og lægstur hjá Hæstarétti eða 4.698.000 kr. Heildarkostnaður hins opinbera vegna fíkniefnamála er metinn 1.701.917.282 kr. árið 2009.6

Hér er aðeins vikið að kostnaðinum við eftirfylgni fíkniefnabannsins. Ótaldar eru þær tekjur sem ríkið verður af vegna sölu vímuefna á ólöglegum markaði.

Júlía tekur fram að rannsókn hennar veki fleiri spurningar en hún svarar. Hún telur eðlilegt að íslensk stjórnvöld rannsaki frekar kostnað og ábata sem hlytist af lögleiðingu kannabisefna.

,,Umræða um jafn veigamikið mál,” segir Júlía, ,,þarf að vera upplýst og fordómalaus en til þess að það sé hægt þurfa að vera til ítarlegar og vandaðar rannsóknir um efnið.”

Er orðið tímabært að lögleiða kannabis? Hafa eftirlit með framleiðslu þess og sölu? Eða er þessu milljarða viðskiptaveldi best borgið neðanjarðar?

Hvert er þitt álit?

 

Sigurfreyr Jónasson er forritari og vefhönnuður sem hefur um árabil kynnt sér sögu vímuefna, tilurð fíkniefnabannsins og afleiðingar stríðsins gegn neytendum tiltekinna vímugjafa. Hann var áður vefstjóri Snarrótar – Samtaka um skaðaminnkun og mannréttindi og hefur skrifað greinar um margvísleg efni á vefsíðunum Sigurfreyr.com, Margmiðlun og Netvarp Sigurfreys.

 

Heimildir

1EMCDDA. 2011. . Sjá einnig .

2Glenn Greenwald. 2009. , bls. 11-12. Cato Institute.

3Glenn Greenwald. 2009. , bls. 24. Cato Institute.

4Anna Guðrún Ragnarsdóttir. 2009. , bls. 38. Hagfræðideild Háskóla Íslands.

5Jóhannes Stefánsson. 2011. , bls. 35. Lagadeild Háskólans í Reykjavík.

6Júlía Birgisdóttir. 2011. , bls. 5. Hagfræðideild Háskóla Íslands.