Fyrirlesarar sem Snarrótin hefur boðið til Íslands

Jóhann Hari og bók hans „Að hundelta ópið“

Jóhann Hari

Johann Hari er verðlaunablaðamaður sem hefur í seinni tíð einbeitt sér að bókaskrifum. Bók hans frá 2015 um fíknistríðið, Chasing the Scream, rataði á metsölulista New York Times og hefur fengið margar lofsamlegar umsagnir, meðal annars frá Noam Chomsky, Sam Harris, Elton John, Naomi Klein, Stephen Fry, Glenn Greenwald – og síðast en ekki síst prófessor David Nutt.

Í bókinni rekur hann á hispurslausan hátt upphaf og þróun glæpavæðingar vímuefna – hins svokallaða fíknistríðs – og þann mannlega harmleik sem hún hefur haft í för með sér. Óhætt er að segja að Hari tæti í sig margar af forsendunum sem þessi stefna er byggð á og þannig leggur hann grundvöllinn að nýrri nálgun, þeirri sem Snarrótin hefur barist fyrir allt frá stofnun, mannúðlegri vímuefnastefnu sem byggist á skaðaminnkun og gagnreyndum aðferðum.

Hari kom til Íslands í tilefni af útgáfu íslenskrar þýðingar hinnar margrómuðu bókar hans Chasing the Scream en í þýðingu Halldórs Árnasonar heitir bókin Að hundelta ópið: Upphaf og endir fíknistríðsins.

Hann flutti fyrirlestra á tveimur fundum í nóvember 2019. Annar þeirra var á vegum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands þar sem nálgunin var akademískari og útgangspunkturinn spurningin Er stríðið við fíkniefnin tapað? Hinn fundurinn sem var á vegum Snarrótarinnar, Rótarinnar og Frú Laufeyjar og nær nær grasrótinni var með útgangsspurninguna Af hverju þarf Ísland á skaðaminnkandi hugmyndafræði að halda?

 

Prófessor David Nutt

Davið Nutt er forseti Evrópska heilarannsóknarráðsins (EBC), prófessor í tauga- og geðlyfjafræði við The Imperial College í London. Hann er forseti Óháðu vísindanefndarinnar um vímuefni (ISCD), forseti Evrópuháskólans í taugageðlyfjafræði (ECNP) og forseti Sambands breskra taugavísindamanna.

Dr. Nutt sýndi fram á að flokkunarkerfi vímuefna, sem bresk löggjöf byggist á, er í engu samræmi við niðurstöður vísindalegra rannsókna. Fyrir vikið var hann rekinn úr starfi sem aðalráðgjafi bresku ríkisstjórnarinnar í vímuefnamálum.

 

Hann  hefur ritstýrt tímaritinu The Journal of Psychopharmacology í rúman áratug.

Árið 2010 taldi tímaritið Times Eureka David Nutt á meðal hundrað áhrifamestu einstaklinga í bresku vísindasamfélagi.

David Nutt var gestur Snarrótarinnar 13. til 17. september 2014. Hann flutti fyrirlestur um vímuefnamál og vímuefnastefnu í Háskóla Íslands, þriðjudaginn 16. september. Fyrirlesturinn var ókeypis og öllum opinn.

 

Snarrótin og Ethan Nadelmann

Ethan Nadelmann

Dr. Ethan Nadelman er framkvæmdastjóri The Drug Policy Alliance, öflugustu baráttusamtaka Norður-Ameríku gegn fíknistríðinu. Hann er doktor í stjórnmálafræði frá Harvard og með meistaragráðu í alþjóðasamskiptum frá London School of Economics.

Nadelmann er einn þekktasti baráttumaður heims gegn bann- og refsihyggju í fíkniefnamálum og gjarnan kallaður heilinn á bak við þann glæsilega árangur sem náðst hefur í Bandaríkjunum að undanförnu.

Nadelmann hefur beitt sér fyrir umbótum á réttarvörslukerfi Bandaríkjanna og er auk þess mikilvægur ráðgjafi í hinni alþjóðlegu hreyfingu gegn fíknistríðinu.

Nadelmann og samtök hans eru til dæmis virkir þátttakendur í umræðunni í Mið- og Suður-Ameríku, m.a. í Urúgvæ, sem lögvæddi nýlega kannabismarkaðinn að fullu.

Ethan Nadelmann dvaldi á Íslandi 8. – 11. maí 2014 í boði Snarrótarinnar og flutti fyrirlestur í Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn var ókeypis og öllum opinn.

 

Annie Machon frá Bretlandi

Annie Machon er Evrópuforstjóri LEAP — Law Enforcement against Prohibition, og fyrrverandi njósnari  bresku leyniþjónustunnar MI5.

Annie flutti fjóra fyrirlestra og kom fram í Spegli Ríkisútvarpsins, Silfri Egils og Íslandi í dag.

Annie ræddi við utan- og innanríkisráðherra, auk fleiri stjórnmálamanna og kynnti sér starfsemi Frú Ragnheiðar, skaðminnkunarverkefnis RRKÍ.

Fullt var út úr dyrum á öllum viðburðum og málflutningur Annie vakti verðskuldaða athygli.

Annie Machon rakti hvernig stríðin þrjú; stríðið gegn fíkniefnum, stríðið gegn hryðjuverkum og stríðið gegn internetinu eru í raun eitt stríð.

Stríð gegn borgaralegum réttindum og friðhelgi einkalífsins.

Uppljóstranir Edward Snowden hafa staðfest orð hennar með eftirminnilegum hætti.

Ítarefni um Annie Machon er að finna á heimasíðu hennar.

Annie Machon var fyrsti gestur Snarrótarinnar og dvaldi á Íslandi  21. – 28. febrúar 2013.

Viltu styrkja Snarrótina til góðra verka?

Okkur vantar alls kyns liðveislu; fjárframlög, aðstoð við þýðingar og ýmislegt fleira

Hafa samband