Hinn heimskunni mannréttindalögfræðingur Damon Barrett verður gestur Snarrótarinnar – samtaka um borgaraleg réttindi, 17. til 21. febrúar næstkomandi. Hann flytur opinberan fyrirlestur um mannréttindabrot í skugga fíknistríðsins, þann 19. febrúar kl 16:30-18:00, í stofu 102 Háskólatorgi. Fyrirlesturinn er samstarfsverkefni Félags- og mannvísindadeildar Háskóla Íslands og Snarrótarinnar.
Damon Barrett á drjúgan þátt í að draga mannréttindabrot í skugga fíknistríðsins fram í dagsljósið.
Damon Barrett er fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri Harm Reduction International (IHRA) og stofnandi og framkvæmdastjóri International Centre on Human Rights and Drug Policy (ICHRDP), sem starfar innan vébanda hins virta Mannréttindaseturs Háskólans í Essex.
Damon hefur birt fjölda greina og bókarkafla, jafnt í ritrýndum tímaritum sem á útbreiddum vefmiðlum.
Hann situr í ritnefnd International Journal of Drug Policy og ritstýrir tímaritinu Human Rights and Drugs.
Damon hefur unnið fyrir ýmsar alþjóðastofnanir, þar á meðal alþjóðlegu skaðminnkunarsamtökin IHRA, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina og Sameinuðu þjóðirnar.
Damon er kvæntur sænskri konu, býr í Gautaborg og stundar doktorsnám við lagadeild Háskólans í Stokkhólmi.
Hann er í þröngum hópi helstu fræðimanna á þessu sérsviði fíknistefnu og mannréttinda.
Damon Barrett hefur um árabil rannsakað jaðaráhrif fíknistefnu (drug policy) á mannréttindi í heiminum, ekki síst á réttindi barna og ungmenna, auk þess heilsutjóns sem útskúfunar- og refsihyggjan kallar yfir fíknisjúka.
Snarrótin minnir á, að meðal flestra vestrænna þjóða færist þungamiðja fíknivarna í æ ríkari mæli frá útskúfunar- og refsihyggju í átt til fíknistefnu sem á rætur í hugsjónum um vernd mannréttinda og bætta heilsu mannkynsins.
Damon Barrett á drjúgan þátt í að draga mannréttindabrot í skugga fíknistríðsins fram í dagsljósið og inn í kjarna umræðunnar um nauðsynlegar réttarbætur í fíknivörnum.
Damon Barrett mun ræða við fjölmiðla og stjórnmálamenn, auk þess sem Snarrótin hefur áhuga á að koma á sérstökum rabbfundi hans með íslenskum lögfræðingum og áhugamönnum um mannréttindi og réttarfar.