Ethan Nadelmann á Íslandi í boði Snarrótarinnar
8. — 12. maí, 2014Ethan Nadelmann, framkvæmdastjóri bandarísku mannréttindasamtakanna The Drug Policy Alliance, heimsótti Ísland 8. til 12. maí í boði Snarrótarinnar, samtaka um borgaraleg réttindi.
Nadelmann ræddi við fjölmiðla um fíknistríðið og það böl sem það hefur leitt yfir heiminn. Hann átti mjög góða fundi með Velferðarnefnd Alþingis, heilbrigðisráðherra, landlækni og embættismönnum innan heilbrigðiskerfisins.
Ethan ræddi einnig við áhugamenn um afnám útskúfunar- og refsihyggju í fíkniefnamálum, þvert á hið pólitíska litróf; pírata, frjálshyggjumenn og skaðaminnkunarfólk, auk félaga í Snarrótinni.
Ethan Nadelmann flutti opinberan fyrirlestur í Háskóla Íslands, Þáttaskil í stríðinu gegn fíkniefnum?, en fyrirlesturinn var samvinnuverkefni Félags- og mannvísindadeildar Háskóla Íslands og Snarrótarinnar.
Fundurinn var vel sóttur og gestir gerðu góðan róm að máli Nadelmann.
Heimsókn Ethan Nadelmann markar að ýmsu leyti þáttaskil í umræðunni um fíknivarnir á Íslandi.
Tengslanet hans er með ólíkindum og það eflir starf Snarrótarinnar að tengjast því, auk annarra umbótahreyfinga sem Snarrótin hafði þegar tengst.
Snarrótin – samtök um borgaraleg réttindi, er orðin órjúfanlegur hluti þeirrar öflugu heimshreyfingar sem krefst þess að fíknistríðinu ljúki, en virðing fyrir mannréttindum og lýðheilsumarkmiðum leysi hugmyndafræðilegar grillur um veröld án fíkniefna af hólmi.
Neðar á síðunni eru tenglar á fyrirlestur Nadelmann, viðtöl á Stöð 2 og í Speglinum hjá RÚV, og grein af MBL.is um fyrirlesturinn.
Auk þess eru nokkrar myndir úr heimsókninni hér fyrir neðan. Sumar myndirnar eru teknar á farsíma í kvöldrökkri á Skólavörðuholti og biðst Snarrótin afsökunar, fyrir hönd Apple Inc, á slökum myndgæðum.
Skýringar við heilsíðumyndirnar að neðan > 1) Ethan ræðir við Jóhannes Stefánsson, lögfræðing, og Halldór Auðar Svansson, kaptein pírata í Reykjavík. 2) Þór Gíslason, forstöðumaður Frú Ragnheiðar, skaðaminnkunarverkefnis RRKÍ segir Ethan fréttir af götunni 3) Ólafur Skorrdal ráðgjafi, Júlía Birgisdóttir gjaldkeri og Björgvin Mýrdal aðalritari ræða stöðuna eftir aðalfund Snarrótarinnar 2014.
ETHAN NADELMANN: Þáttaskil í stríðinu gegn fíkniefnum?
Félags- og mannvísindadeild HÍ í samvinnu við Snarrótina
Fundarstjóri: Stefán Hrafn Jónsson dósent í félagsfræði við Háskóla Íslands.
Hann hefur kennt við Princeton háskóla, skrifað bækurnar Cops Across Borders og Policing the Globe, og birt fjölda greina í virtum fagtímaritum á borð við Science, International Organization, Foreign Affairs, Foreign Policy og Public Interest.
Nadelmann hefur sömuleiðis komið fram í öllum helstu fréttamiðlum Bandaríkjanna og víðar.
Nadelmann er einn þekktasti baráttumaður heims gegn bann- og refsihyggju í fíkniefnamálum og gjarnan kallaður heilinn á bak við þann glæsilega árangur sem náðst hefur í Bandaríkjunum að undanförnu, nú síðast í Colorado og Washington.
ÍSLAND Í DAG: Ísland á kolrangri braut í fíkniefnamálum
Heimir Már ræðir við Ethan Nadelmann
„Mér skilst að á Íslandi, og það er aðdáunarvert við samfélag ykkar, er þessi hefð fyrir umbyrðarlyndi og andstaða við að setja fólk í fangelsi og svipta það frelsi sínu. En svo virðist vera þessi undantekning hvað ólögleg vímuefni varðar,“ segir Ethan Nadelmann.
„Þið sendið hunda inn í sali til að leita á ungu fólki og kennið þeim að þau séu álitin sek þangað til sakleysi þeirra er sannað. Þið merkið fólk fyrir lífstíð sem gerir því erfitt að fá vinnu, eða ferðast til Bandaríkjanna eða fá húsnæði eða þess háttar.“
Ethan segist skynja að á Íslandi ríki umburðarleysi hvað varði kannabis eða önnur fíkniefni sem sé svæsnara en í hans landi og í mótsögn við hefð Íslendinga fyrir umburðarlyndi.
„Hvernig hagnast þjóðfélagið á því að láta ungmenni á sakaskrá fyrir það eitt að eiga og nota jónu? Ég sé engan ávinning. Þegar um mann er að ræða sem er háður fíkniefni í hvítu duftformi. Hvernig græðir samfélagið á því að koma fram við hann sem glæpamann og neyða hann til að nota skítugar nálar, neyða hann út á göturnar í stað þess að líta á hann sem mann með fíkn sem þarfnist hjálpar?“
SPEGILLINN: Bann- og refsistefna virkar ekki
Jón Guðni Kristjánsson ræðir við Ethan
,,Það sem ég berst fyrir,” segir dr. Ethan Nadelmann, ,,er að neysla vímuefna eins og maríúana verði refsilaus. Það verði settur ákveðinn rammi varðandi neyslu og sölu þessara efna eins og gert með áfengi.”
,,Lönd okkar hafa reynslu af bannstefnu í áfengismálum og við vitum að hún kom ekki í veg fyrir áfengisneyslu,” segir Nadelmann. Afleiðingin varð glæpaalda og í Bandaríkjunum ofbeldisalda, bannstefna olli virðingarleysi fyrir lögum, hræsni og kaldhæðni.
Hún gerði áfengið hættulegra en ella vegna þess að það var framleitt ólöglega og eftirlitslaust. Allar sömu röksemdir eiga við um kannabis. Refsingar eins og að setja fólk á sakaskrá fyrir neyslu kannabiss valda því meiri skaða en neyslan sjálf. Og eldra fólk sem einhvern tíma hefur neytt kannabiss þorir ekki að ræða það hreinskilnislega við börn sín, það verður til hræsni og feluleikur.
Nadelmann er sannfræður um að hugsanlegir ávinningar af bann- og refsistefnu verði ætíð minni en reglusetning um neysluna og segir nauðsynlegt að læra af reynslu ríkja sem hafa slakað á bannstefnunni eins og Hollands og Portúgals.
MBL.IS: Flestir nota vímuefni skynsamlega
Morgunblaðið um fyrirlestur Ethans
Ethan Nadelmann er doktor í stjórnmálafræði frá Harvard og með meistaragráðu í alþjóðasamskiptum frá London School of Economics.
Í starfi sínu sem framkvæmdastjóri The Drug Policy Alliance hefur hann komið að stefnumótun vegna lögleiðingar maríúana í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna og í Úrúgvæ.
Þá hefur hann unnið fyrir innanríkisráðuneyti Bandaríkjanna og gert rannsóknir á fíkniefnamálum, löggæslu í tengslum við fíkniefnabrot og áhrif á samfélagið.
Aðspurður um það hvernig hann sæi stöðu Íslands í þessum efnum sagði Nadelmann að það væri algjörlega óásættanlegt að í lýðræðisríki eins og Íslandi hefði fólk ekki aðgang að maríúana í læknislegum tilgangi.
Þá taldi hann að refsistefnan hér væri of ströng og nefndi dæmi um að hér væri auðveldara að taka börn af foreldrum sem neyttu kannabisefna en væru að öðru leyti góðir foreldrar, en af þeim sem ættu við áfengisvanda að stríða og gengju jafnvel fram með ofbeldi við börnin.
Hann sagði aftur á móti að það heillaði sig hversu fáir væru í raun handteknir hér vegna neyslu og að það benti til þess að menn teldu neysluna ekki jafn refsiverða og lögin bentu til.
Hræsni á Íslandi
Að lokum sagði hann að miðað við það sem hann hefði heyrt væri umræða um vímuefni komin mjög stutt á leið hér á landi. Þannig hefði ekki mikið verið rætt um neyslu þingmanna eða hátt settra einstaklinga í þjóðfélaginu. Á sama tíma væri nokkuð almenn umræða um fyrrum neyslu þingmanna í Bandaríkjunum og þar væri það ekkert launungarmál.
Sagði Nadelmann að í ljósi þess að allt að 40% Íslendinga hefðu prufað maríúana, samkvæmt könnunum, þá væri ljóst að hluti þingmanna, stjórnenda fyrirtækja o.fl. hefðu neytt fíkniefna eða væru neytendur í dag. Það fælist því ákveðin hræsni í því að ekki væri meira fjallað um málefnið á hreinskilnum nótum.
Svipmyndir frá heimsókn Ethan Nadelmann á Íslandi
9) Pétur Þorsteinsson, Sigurfreyr, Ethan og Ólafur Skorrdal ráðgjafi Snarrótarinnar. 10) Ethan og Þorsteinn Úlfar í útsýnisferð um Suðurland. 11-12) Útsýnisferðin.
Myndasyrpan
1) Ethan Nadelmann og Pétur Þorsteinsson formaður Snarrótarinnar ræða málin.
2 og 3) Fyrirlestur Ethans í Háskóla Íslands.
4) Stefán Hrafn Jónsson, lektor í félagsfræði og fundarstjóri.
5) Arnaldur Sigurðarson, Jónas Orri, Björgvin Mýrdal og Júlía Birgisdóttir á rabbfundi með Ethan í Perlunni.
6) Ethan Nadelmann, Þór Gíslason, Guðmundur Ragnar Guðmundsson og Elín G. Gunnarsdóttir ræða málin í Perlunni.
7) Ethan og Sigurfreyr Jónasson vefstjóri Snarrótarinnar eru brosmildir eftir góðan kvöldverð.
8) Ethan og Björgvin Mýrdal, ritari Snarrótarinnar.
Snarrótin og réttindamál
Snarrótin — Samtök um borgaraleg réttindi er félag áhugamanna um opið samfélag, mannréttindi, upplýsingafrelsi og nýjar leiðir í fíknivörnum. Markmið félagsins er verja borgaraleg réttindi og friðhelgi einkalífs.
Lögvæðing og regluverk
Snarrótin hafnar refsistefnu bannhyggjunnar. Hún styður fulla lögvæðingu kannabismarkaðarins og að skatttekjum af kannabisverslun verði varið til stuðnings barna, ungs fólks og fíknisjúkra.
Ókeypis fyrirlestrar
Snarrótin hefur enga fasta tekjustofna. Það er stefna félagsins að allir fyrirlestrar á hennar vegum séu ókeypis og öllum opnir. Allt söfnunarfé rennur óskipt til verkefna á vegum Snarrótarinnar.
Frjáls framlög almennings
Snarrótin fjármagnar starfsemi sína með frjálsum framlögum frá almenningi. Öll vinna í þágu Snarrótarinnar er sjálfboðastarf. Snarrótin rekur ekki skrifstofu, greiðir engin laun og hefur enga yfirbyggingu.
Viltu styrkja Snarrótina til góðra verka?
Okkur vantar alls konar liðveislu; fjárframlög, aðstoð við þýðingar, myndbandagerð og ýmislegt fleira