Sænskir bannhyggjupáfar eru snillingar í að setja upp nýja hatta og þá virðist ekki skorta fé til að halda stórbrotnar ráðstefnur.

World Federation Against Drugs, WFAD, er nýjasti pípuhattur Svíanna, en undir honum leynast sömu menn og predikað hafa sænsku harðlínuna árum og áratugum saman. Jafnvel Torgny Peterson, herforingi ECAD á Íslandi, er þeirra á meðal.

Og Íslendingar láta sig ekki vanta á skrautsýningar WFAD. Okkar fulltrúi að þessu sinni var Jón Sigfússon frá Rannsóknum og greiningu. Snarrótin mælir með því að lesendur skoði glærur hans.

Ástæða er til að benda á hreina fölsun í línuritum Jóns, hvað varðar fikt unglinga við kannabis. Hann kýs að nota tölur um þá unglinga sem prófað hafa hass – en það hefur ekki verið á markaði frá hruni. Hann gæti allt eins spurt um notkun á Ludvig David kaffibæti og fengið útkomuna núll.

Þetta er sérlega sorgleg fölsun vegna þess að Jón Sigfús veit betur. Hann hefur undir höndum tölur sem sýna fikt unglinga við kannabis-gras – en þar sem þær fara ekki eins vel í línuritinu kýs hann að fela þær.

Önnur fölsun Jóns Sigfússonar er að velja árið 1998 sem upphafspunkt á helsta línuritinu, árið sem fiktið var í hámarki, þó svo að eldri mælipunktar séu til, eins og raunar kemur fram í öðru línuriti.

Ef rétt er með tölfræðina farið kemur í ljós að kannabisfiktið í dag er ámóta og það var áður en sænsku bumbuslagararnir gerðu allt vitlaust hér á tíunda áratug síðustu aldar.

Mikilvægasti lærdómurinn af glærum Jóns Sigfússonar er þessi:

Það hefur dregið verulega úr notkun löglegu fíkniefnanna, áfengis og tóbaks, í 10. bekk grunnskóla á síðustu árum. Sama er ekki unnt að segja um ólögleg efni, nema með því að beita fölsunum.

Það má líta á þetta sem vísbendingu um að regluvæddur markaður sé vænlegri en svarti markaðurinn til að afstýra notkun unglinga á óæskilegum efnum.

Rétt er að ítreka að enginn veit með neinni vissu hvað veldur þeirri jákvæðu þróun sem orðið hefur í íslenskum grunnskólum á liðnum árum. Auðvitað reynir einkafyrirtækið Rannsóknir og greining að eigna sér hann og gera afrek sín að útflutningsvöru.

Hér er tengill á glærur Jóns Sigfússonar á 4. heimsþingi WFAD.
 

Fréttabréf Snarrótarinnar

Skráðu þig á póstlistann og fáðu fréttir og tilkynningar um viðburði.

Netfangið þitt er trúnaðarmál og er ekki gefið öðrum. Þú getur skráð þig af listanum hvenær sem er.