SEGÐU BARA NEI

Við lögregluna. Þegar hún biður um að leita á þér á tónlistarhátíð eða götum úti án gildrar ástæðu. Það er áreitni og misbeiting valds, og fordómar gagnvart ungu fólki og ákveðnum tónlistarstefnum, að lögreglan beiti sér sérstaklega með hunda á hátíðum þar sem teknó og hip hop tónlist er í aðalhlutverki. Ekki fara þeir með hunda niðrí bæ á Iceland Airwaves. Eða bara á djammið á venjulegri helgi, þó það sé vitað mál að þar noti fullt af fólki eiturlyf. Hvað þá á tónleika með rokkhljómsveitum sem 68 kynslóðin fílar, eða biddu fyrir þér, sinfóníutónleika.

SEGÐU BARA NEI

Ég varð fyrir því á Secret Solstice að hundur sniffaði af mér og ég neitaði lögreglu um leyfi til að leita á mér. Sem ég og allir hafa rétt á, en lögreglan vill ekki að þú vitir af. Ég var ekki að angra nokkurn skapaðan mann eða gera neitt af mér. Það sem tók við þá var harkalegur þrýstingur ca. sjö lögreglumanna að veita leyfi mitt til líkamsleitar, eða þá að afhenda meint eiturlyf og skrifa undir dómssátt, þar sem minnsta brotabrot úr grammi hefur í för með sér tugi þúsunda í sekt og skráningu á sakaskrá í þrjú ár. Löggan reynir hins vegar að telja þér trú um að það skipti engu máli, þrýsta á þig að skrifa undir, og dangla fyrir framan þig gulrótinni að þá muni þeir hætta að áreita þig og þú getir farið aftur að njóta tónleikanna.

SEGÐU BARA NEI

Þarna voru sjö lögreglumenn á launum frá skattgreiðendum allan daginn með sérþjálfaða hunda til þess eins að geta böstað ungmenni með smávægilega neysluskammta og mögulega eyðileggja framtíðarnáms- og starfsmöguleika þeirra með því að skrá það á sakaskrá. Þeim sem finnst tíma lögreglumanna og fé skattgreiðenda vel varið í slíkar aðgerðir væru fyrirmyndarþegnar í þúsaldarríki þjóðernissósíalista.

SEGÐU BARA NEI

Lögreglan beitti vissulega yfirgangsskap, frekju og ólögmætum þvingunum þegar ég notaði sjálfsagðan rétt minn til að neita líkamsleit, en hún þurfti samt á endanum að gefa sig. Því hún vissi upp á sig sökina; að handtaka mann sem sýnir engin merki um ógnandi hegðun, fyrir það eitt að hundur sýni honum smávægilegan áhuga, er algjörlega út úr kortinu. Hvað þá að hringja í dómara og biðja um dómsúrskurð á ókristilegum tíma bara því að neitun um líkamsleit jafngildi grunsamlegri hegðun.

SEGÐU BARA NEI

En lögreglan treystir á þessa kúgunargeggjun og eineltistilburði til að ná sínu fram. Því fólk er almennt hrætt við ógnandi yfirvald og þekkir ekki réttindi sín nógu vel. En ef allir myndu bara segja alltaf NEI við líkamsleit í svona aðstæðum, algjörlega óháð því hvort fólk væri mögulega með smotterí af ólöglegu efni í vasanum eða ekki, þá kæmist lögreglan ekki upp með þessa valdníðslu. Því þeir leita á tugum, ef ekki hundruðum manna á tónlistarhátíð eins og Solstice, og ef einn neitar þurfa tveir lögreglumenn að handtaka hann. Það er íþyngjandi aðgerð og skaðabótaskyld ef tilefnislaus, fara með fólk upp á stöð og vakta það, plús hringja í dómara og kría út dómsúrskurð til að leita á fólki fyrir nánast engar sakir. Það gefur augaleið að ef allir myndu neita lögreglunni um líkamsleit kæmust þeir ekki upp með þessa kúgunartilburði sem þeir hafa sýnt á undanförnum Solstice- og Sónarhátíðum.

SEGÐU BARA NEI

Lögreglan segir stundum, „Við setjum ekki lögin, við bara framfylgjum þeim“. En það er algjört bull, kjaftæði og firra. Það er til dæmis tæknilega séð ólöglegt að vera ölvaður og með „óspektir“ á almannafæri. Lögreglan gæti strangt til tekið farið niðrí miðbæ í fjöldahandtökur hverja helgi fyrir ölvun og óspektir á almannafæri. Annað mjög nýlegt dæmi er þegar lögreglan sagðist stundum veita fólki ákveðinn sveigjanleika þegar kemur að því að vera á nagladekkjum eftir að löglegu tímabili til slíks líkur. Lög eru nefnilega ekki bara lög.

Það er lögreglupólitísk ákvörðun og aðgerð fólgin í því að leggja áherslu á fíkniefnavörslubrot á tilteknum hátíðum en ekki annars staðar. Það er geðþóttaákvörðun yfirmanns í lögreglunni að senda fullt af löggum með hunda á Solstice, en ekki hlutlaus framfylgni laganna. Geðþóttaákvörðun sem getur lagt líf fjölda ungmenna í rúst fyrir það eitt að skemmta sér á hátt sem er valdstjórninni ekki þóknanlegur. Segjum öll NEI við slíkum ákvörðunum, segjum NEI við líkamsleit af handahófi og segjum NEI við valdníðslu og ólögmætum hótunum lögreglunnar.

SEGÐU BARA NEI

Fréttabréf Snarrótarinnar

Skráðu þig á póstlistann og fáðu fréttir og tilkynningar um viðburði.

Netfangið þitt er trúnaðarmál og er ekki gefið öðrum. Þú getur skráð þig af listanum hvenær sem er.