Snarrótin hitti Claudia Black um daginn og tók viðtal við hana. Claudia er heimsþekktur sérfræðingur í fíkn og áhrifum hennar á fjölskyldur. Hér er það sem hún hafði að segja:

 

Má biðja þig um að kynna þig, fyrir þau sem ekki þekkja til þín?

Ég heiti Claudia Black og ég er bæði félagsráðgjafi og sálfræðingur frá Bandaríkjunum. Ég hef unnið í fíknigeiranum í yfir fjörutíu ár og það hefur verið mitt lífsstarf. Ég er helst þekkt fyrir vinnu mína sem snýr að áhrifum fíknar á fjölskyldur. Fyrri hluta ferilsins vann ég mest í kringum börn sem búa í fjölskyldum þar sem áfengisvandamál er til staðar. Síðari hluta ferilsins hef ég svo einblínt á áhrif og afleiðingar þessa vanda á börnin þegar þau fullorðnast. Í dag er ég hingað komin til Reykjavíkur til að fjalla um samspil áfalla og fíknar í fjölskyldum. 

Ég vinn á stórri endurhæfingarstöð í Arizona sem heitir The Meadows. Um er að ræða meðferðarstöð fyrir einstaklinga með bæði fíkniraskanir og geðraskanir. Þar stjórna ég deildinni The Claudia Black Young Adult Center, sem er fyrir fólk á aldrinum 18 til 26 ára. Þangað koma ungmenni með ýmiskonar vímuefnaraskanir, hegðunarfíknir, s.s. tölvuleikjafíkn eða spilafíkn og geðraskanir á borð við þunglyndi og sjálfsskaða. Við vinnum mikið með undirliggjandi áföll, hvort sem þau stafa frá fíkniröskununum, liggja til grundvallar fíkninni eða voru undarfari geðraskananna. 

Ef ég má spyrja þig út í það, vinnið þið þá vinnu samhliða, fíknimeðferðina og áfallameðferðina?

Já, við gerum þetta samhliða. Fyrir fáeinum árum þá var það almennt viðtekið að maður ætti að vinna fyrst með fíknina og að svo gæti áfallavinnan hafist einu eða tveimur árum seinna. Okkar reynsla var sú að þú misstir af þeim með þessari nálgun, því einu eða tveimur árum seinna voru þau fallin. Svo við lítum á óunnin áföll sem stóran áhættuþátt fyrir fallhættu. Að auki við þetta þá koma mjög margir inn með margs konar fíknihegðun á sama tíma. Fólk kemur inn vegna þess að einhver fíknihegðunin hefur leitt til alvarlegra vandkvæða, þau koma til dæmis vegna vímuefnaröskunar, en við sjáum að til staðar er, segjum, spilafíkn líka, sem veldur kannski ekki jafn mörgum eða alvarlegum vandamálum þá stundina. Ef við ætlum að leysa eina fíknihegðun og geyma svo hina þar til einu eða tveimur árum seinna, þá munum við ekki sjá þau aftur vegna þess að þau hafa fallið í sama far. Svo við vinnum með þá blöndu fíkniraskana sem er til staðar, jafnvel þó svo þær hafi ekki allar valdið jafn miklum vandamálum.

Hvers konar aðferðir notið þið?

Við notumst mikið við alls konar aðferðir til jarðtengingar (e. grounding exercises) og núvitundaræfingar. Hluti af því er vegna þess að taugakerfi þeirra er í svo miklu ójafnvægi. Þá er það miðhluti heilans sem stjórnar ákvarðanatöku þeirra og hegðun, sem byggir þá á tilfinningum frekar en skynsemi, og rökhluti heilans er ekki við stjórnvölinn. Til að hjálpa til við þetta þá gerum við alls konar æfingar til jarðtengingar, allt frá öndunaræfingum til neurofeedback tækni til jóga til núvitundarhugleiðslu, til að róa þennan hluta heilans niður og fá rökhluta heilans til að vinna betur. Við notumst svo við margs konar áfallameðferðir, svo sem EMDR, somatic experiencing og sensorymotor meðferð. Í starfi mínu með ungu fólki notast ég mikið við svokallaða hreyfimeðferð (e. action based psychotherapy), þar sem ég fæ þau til að standa upp og leika það sem við erum að vinna með. Við notumst einnig mikið við listmeðferð og höfum mörg falleg listaherbergi á hinum ýmsu deildum, vegna þess að oft nær fólk að tjá sig mun betur í gegnum skriftir og list heldur en í gegnum talmeðferð. Það er þannig, ef fólk kemur inn með fíkniröskun, alvarlega þunglynt eða kvíðið, þá er oft mikil áfallasaga í bakgrunni og fólk veit ekki hvernig það á að tala um þessa hluti, það verður of yfirþyrmandi. Svo við notumst þess vegna við margs konar annars konar aðferðir en talmeðferð, til að gefa þeim verkfæri til að byrja að tjá þá reynslu sem það á að baki, viðhorf sín, tilfinningar og markmið, hvernig það vill lifa lífi sínu á annan hátt. Því við vitum að það er oft of yfirþyrmandi til að setja í orð.

Hversu lengi er fólk hjá ykkur að meðaltali?

Við vinnum oftast með fólk í 45 daga. Eftir útskrift frá okkur heldur svo vinnan áfram í heimabyggð, það er mikilvægt að halda áfram. Flestir skjólstæðinga okkar þurfa í það minnsta sex mánuði af markvissri og þéttri meðferðarvinnu eftir að þeir fara frá okkur. Hluti af okkar vinnu er þannig að setja upp áframhaldandi meðferð í þeirra nærumhverfi, sem getur farið fram á meðan þau eru á áfangaheimili eða á öðrum öruggum stað, jafnvel öðru meðferðarheimili sem er ekki alveg jafn formfast, þannig að þau hafi ráðrúm til að lifa sínu daglega lífi líka, en ekki bara vera í meðferð allan daginn. En það er mitt álit, sérstaklega þegar kemur að vinnu með fíkniraskanir, að því lengur sem þau hafa kost á því að vera í meðferðarferli, því betri verður árangurinn. Ef þau geta verið í þrjá mánuði, sex mánuði, ef þau geta verið í ár, það er auðvitað ekki alltaf hægt, en því lengur sem haldið er utan um þig, því meiri verða líkurnar á bata. Það er jú þannig að eftir 30-45 daga þá hefur fólk rétt svo náð að fara í gegnum afeitrun. Þó hausinn sé orðinn mun skýrari að þeim tíma loknum en við upphaf meðferðar, þá er hann þess mun skýrari hálfu ári seinna.

Lífsstarf þitt snýst um óheilbrigði innan fjöskyldukerfa, hvernig kemur það inn í þetta allt saman?

Eitt af því sem við gerum á Meadows, er að við byrjum að vinna með fjölskyldum skjólstæðinga okkar allt frá byrjun. Við höfum samband við fjölskylduna mjög snemma í ferlinu og biðjum um símafund með þeim, og við á minni deild erum með vefnámskeið fyrir fjölskyldumeðlimi. Svo bjóðum við þeim að koma og dvelja hjá okkur í fimm daga. Fólk kemur alls staðar að, bæði frá Bandaríkjunum og heiminum, en þurfa að skilja og tala ensku, eðli málsins samkvæmt.

Vinnan með fjölskyldur er í raun þrískipt: Við vinnum með þeim í að koma auga á það hvaða hvernig þau hafa verið meðvirk skjólstæðingi okkar, þ.e. gert þeim kleift að viðhalda fíknihegðun sinni eða hlíft þeim við afleiðingum eigin hegðunar. Ef ekki er tekið á slíkri hegðun getur það skemmt fyrir þeim bata sem orðið hefur. Við vinnum einnig með þeirra eigin vandamál, því ef þú býrð með einhverjum sem er alvarlega þunglyndur, í sjálfsskaða eða virkri fíkn, og jafnvel þó þú búir ekki með þeim en þetta er náinn fjölskyldumeðlimur, þá myndast ákveðin mynstur hjá manni, svo sem að vera mjög upptekin af hegðun þess sem veikur er, ofurárvekni gagnvart því sem gæti talist ógn eða sjúkleiki hjá hinum veika, og þörf fyrir að stjórna hegðun skjólstæðingsins, sem þú hefur auðvitað ekki nokkra stjórn á. Þú byggir upp skýjaborgir um hvernig hlutirnir í raun eru eða gætu orðið, þú byggir upp hátt þol fyrir óviðeigandi hegðun og svo framvegis. Þetta eru áfallaviðbrögð, og oft sett undir hatt meðvirkninnar. Svo við viljum gefa fjölskyldunni tækifæri á að finna sinn eigin bata. Oftast nær þegar fjölskylda kemur til okkar er hún í sárri þörf fyrir bata, án þess að átta sig endilega á því sjálf. Með sálfélagslegri fræðslu þá gefum við þeim tækifæri til að sjá hvernig þeirra eigin bati gæti litið út og hvernig líf þeirra gæti verið öðruvísi. Svo það er að taka á meðvirkninni og að gefa þeim tækifæri til að sjá leiðina að eigin bata. Að síðustu reynum við að finna úrræði fyrir fjölskyldurnar í sinni heimabyggð og tengja þær við, sem þær geta haft aðgang að eftir útskrift skjólstæðings.

Þetta er ansi umfangsmikið.

Þetta er mjög umfangsmikið. Þær kringumstæður sem gera það að verkum að manneskja kemur inn í meðferð geta verið mjög flóknar. Okkar hlutverk sem meðferðaraðila er að koma auga á þessi flóknu ferli, taka þau inn í myndina fyrir hvern skjólstæðing fyrir sig og byggja skrefin í átt að bata án þess að ferlið verði of yfirþyrmandi fyrir skjólstæðinginn og fjölskylduna.

Einn af þeim hlutum sem ég talaði um í dag var skömmin sem svo margir bera með sér í fjölskyldukerfum þar sem fíkn er til staðar. Bæði skömm skjólstæðingsins og skömm fjölskyldumeðlima. Okkar hlutverk er að hjálpa fólki, ekki bara til að breyta þeirri hegðun sem breiðir yfir skömmina, heldur líka að breyta þeim undirliggjandi viðhorfum og trúm sem liggja til grundvallar, og að lokum kenna þeim nýjar leiðir, nýja færni. Fólk kemur alltaf inn með einhverja færni, svo stundum er hjálpin fólgin í því að aðstoða það við að koma auga á eigin færni, og stundum að kenna þeim færni sem það vantar í verkfæratöskuna því þau hafa ekki lært hana á lífsleiðinni. Við vinnum því bæði með atferlisþáttinn og hugræna þáttinn, því viðhorf og hugsanir geta staðið í vegi fyrir meðferð og bata. Að síðustu vinnum við með tilfinningaþáttinn; greiða úr því hvaða tilfinningar það eru sem skömmin hefur breitt yfir, og hvernig maður getur lært að þola við í þeim tilfinningum, svo sem ótta, sorg, reiði eða depurð, án þess að þurfa að grípa til skaðlegrar hegðunar. Hluti af okkar starfi er að búa til þær kringumstæður að fólk geti farið í gegnum þetta ferli á öruggan hátt og á viðeigandi hraða. Það er á okkar ábyrgð að skapa nægilegt öryggi til þess.

Kemur skaðaminnkun inn í þetta á einhvern hátt?

Í Bandaríkjunum er skaðaminnkun nær eingöngu iðkuð þegar kemur að allra veikasta hópnum, fólki sem hefur misst húsnæði sitt, getur ekki haldið vinnu eða haldið daglegri virkni á sama hátt og meirihluti þegna. Það er ekki mikil áhersla lögð á aðra hópa. Það veltur þó kannski á því hvað fellur undir hugtakið skaðaminnkun. Þegar kemur að ópíóðafaraldrinum, þá erum við til dæmis að nota viðhaldsmeðferðir fyrir fólk með ópíóðafíkn, til að hjálpa þeim með daglega virkni, til að hjálpa þeim að glíma við löngun í efnið og til að auðvelda niðurtröppun, sem er bæði löng og erfið þegar kemur að þessum flokki lyfja.

Hver er þín kenning um ástæður ópíóðafaraldsins?

Ég er bara ein manneskja, og þetta gæti vel verið mín persónulega skekkja, en ég held það hafi mun meira að gera með lyfjaiðnaðinn heldur en einstaklinginn. Vissulega verða alltaf til einstaklingar sem sækja í lyf, en þegar kemur að þessum faraldri þá held ég að rætur hans megi miklu frekar rekja til ábyrgðarlausra úthlutana lækna, sem hafa í sumum tilvikum ekki einu sinni hitt viðkomandi. Samfélög þurfa að taka höndum saman varðandi þetta og taka stjórnina á þessum enda.

Ef það væri einn hlutur sem þú vildir koma á framfæri við almenning hér á landi, hvað væri það?

Þetta er mjög stór spurning. Mig langar í fyrsta lagi að taka fram að þekking á eðli fíknar er almennt séð ekki mikil.  Einnig það að fólk lokar oft augunum fyrir fíknihegðun eða sættir sig við hana, og gengur þar af leiðandi út frá því að hún sé óhjákvæmileg.

Ef það er eitthvað eitt sem ég vil að fólk viti, þá er það að þú þarft ekki að lifa lífinu þínu á þann hátt. Þú þarft ekki að vera í hálsól áfengis, vímuefna eða annarra fíkna, sem stjórna því hvernig þú lifir lífinu og hefur áhrif á öll þín mikilvægustu sambönd. Því fíkn leiðir ekki bara oft til ótímabærs dauða, hún eyðileggur allt sem er þér kært áður en að þeim dauða kemur. Og einnig fyrir fjölskyldumeðlimi; þú þarft ekki að umbera eða vænta þess að svona eigi hlutirnir bara að vera. Þú getur líka lifað þínu lífi öðruvísi. Það mun kosta það að standa á þínu og setja mörk þar sem þú hefur ekki viljað setja mörk, það mun þýða að þú þurfir að segja nei þar sem þú hingað til hefur ekki viljað segja nei, það mun leiða til árekstra sem þú hefur hingað til forðast, en það hefur einnig í för með sér að þú losnar úr viðjum kvíðans og skammarinnar. Allir eiga bataferli skilið. Í Bandaríkjunum, og ég veit að því er eins farið hér, því ég hef hitt svo marga, eru margir reyndir meðferðaraðilar og margar góðar leiðir, ef þú ákveður að taka það skref. Leiðirnar eru til staðar, þú þarft ekki að halda áfram að lifa lífinu á sama hátt og þú hefur gert hingað til. Og ef þér finnst læknirinn þinn ekki taka þig alvarlega með það sem þú veist innra með þér að er vandamál, finndu þá nýjan lækni. Hér eru læknar, sálfræðingar og margt annað heilbrigðisstarfsfólk sem mun taka þig alvarlega. Finndu það fólk. Það er þarna.

Fréttabréf Snarrótarinnar

Skráðu þig á póstlistann og fáðu fréttir og tilkynningar um viðburði.

Netfangið þitt er trúnaðarmál og er ekki gefið öðrum. Þú getur skráð þig af listanum hvenær sem er.