Viltu leita réttar þíns?

Ef þú hefur verið beitt(ur) þvingunarúrræðum af hálfu lögreglu gætir þú átt rétt á bótum.  

Í sakamálalögunum er að finna ákvæði sem heimila lögreglu, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, að beita borgarana þvingunum. Um er að ræða þvingunarráðstafanir á borð við handtöku, líkamsleit, húsleit, líkamsrannsókn, fangelsun, gæsluvarðhald o.fl. Sjá nánar hér að neðan.

Þessar þvingunarráðstafanir eru í eðli sínu taldar fela í sér brot á mikilvægum mannréttindum fólks, s.s. brot á friðhelgi einkalífs, persónufrelsi og eignarétti. Af þeim sökum hefur löggjafinn mælt fyrir um það að hver sá sem er beittur slíkum þvingunarúrræðum skuli alla jafna eiga rétt á skaðabótum, þ.e. hafi mál hans ekki endað með refsingu. 

Snarrótin býður nú þeim sem hafa orðið fyrir þvingunarúrræðum á síðustu 4 árum (en ekki hlotið refsingu í framhaldinu) lögmannsþjónustu við að sækja þær bætur. Hægt er að hafa samband við okkur í gegnum netfangið snarrotin@snarrotin.is.

 

Líkamsleit: 

Þegar rætt er um líkamsleit er átt við leit á einstaklingi í þeim tilgangi að leggja hald á muni sem hann kann að hafa á sér, s.s. ólöglegum vímuefnum, ránsfeng eða öðru. 

Með líkamsleit er einnig átt við það þegar lögreglan leitar að munum sem hún telur að einstaklingur hafi falið inni í sér, t.d. með því að gleypa ólögleg vímuefni.

Lögreglan má aðeins framkvæma líkamsleit hafi hún fengi leyfi hjá dómara (dómsúrskurð) nema með ótvíræðu samþykki einstaklingsins. Í undantekningartilvikum er heimilt að leita á einstaklingi ef brýn hætta er á því að biðin eftir leyfi dómara valdi sakarspjöllum. 

 

Líkamsrannsókn: 

Um er að ræða skoðun eða rannsókn sem beinist að líkama einstaklings og þá oftast að einstökum líkamshlutum hans. Til dæmis þegar blóð- og þvagsýni eða önnur lífsýni er tekið úr honum. 

Lögreglan má aðeins framkvæma líkamsrannsókn hafi hún fengi leyfi hjá dómara (dómsúrskurð) nema með ótvíræðu samþykki einstaklingsins.

 

Húsleit:

Með húsleit er átt við það þegar lögreglan leitar í húsakynnum einstaklings, geymslum, hirslum, bifreiðum og öðrum farartækjum hans.  

Meginreglan er sú að lögreglan getur aðeins framkvæmt húsleit með leyfi dómara (dómsúrskurðar) nema með ótvíræðu samþykki einstaklingsins.

Leit er heimil án dómsúrskurðar á víðavangi, í húsakynnum eða farartækjum sem eru opin almenningi eða hver og einn getur átölulaust gengið um. Með því er átt við að lögreglunni er heimilt að leita af hlutum úti í móa eða á almenningssalernum. Athugið, þetta á ekki við um leit á einstaklingum sem eru þar staddir, til þess þarf leyfi umræddra eða dómsúrskurð.

 

Haldlagning:

Haldlagning á sér stað þegar lögreglan tekur eigur einstaklings og færir í sína vörslur, t.d. peninga, síma, tölvu, bifreið, gögn eða aðra muni. 

Lögreglan þarf almennt ekki dómsúrskurð fyrir haldlagningunni. Hún má þó ekki leggja hald á muni sem innihalda upplýsingar um trúnaðarsamskipti eiganda við lögmann sinn.

Ef haldlagningin á að koma í veg fyrir að sönnunargögn séu eyðilögð skal fyrst bjóða eiganda að veita aðgang að hlut og/eða gefa afrit af gögnunum áður en hluturinn er tekinn til vörslu. Til dæmis með að fá afrit af símasamskiptum í stað þess að taka símtæki. 

 

Handtaka: 

Með handtöku er átt við það þegar lögreglan frelsissviptir einstakling í tiltölulega skamman tíma í þágu rannsóknar/meðferðar sakamáls eða til þess að halda uppi lögum og reglu. 

Lögreglan má ekki halda einstaklingi handteknum í meira en 24 klukkustundir. Sé ætlunin að halda honum lengur verður hún að fara fram á gæsluvarðhald fyrir dómi. 

 

Gæsluvarðhald: 

Gæsluvarðhald er tímabundin frelsissvipting sem lögreglan getur beitt í þágu rannsóknar eða meðferðar sakamáls. 

Við beitingu gæsluvarðhalds þurfa ákveðin skilyrði að vera uppfyllt og lögreglan þarf alltaf leyfi dómara (dómsúrskurð). 

Gæsluvarðhald er ekki afplánun en kemur þó yfirleitt til frádráttar fangelsisrefsingu ef viðkomandi er dæmdur til fangelsisrefsingar í kjölfar gæsluvarðhalds.

 

Símahlustun og önnur sambærileg úrræði: 

Um er að ræða aðgerðir lögreglu sem miða að því að fylgjast með samskiptum einstaklinga eða ferðum þeirra. Til dæmis með símahlerun, földum staðsetningarbúnaði, beiðni um upplýsingar um símtöl og samskipti frá fjarskiptafyrirtækjum og myndatöku af fólki, bæði ljósmyndun og kvikmyndun. 

Úrræðinu eru settar þröngar skorður lögum samkvæmt og lögreglan þarf alltaf leyfi dómara (dómsúrskurð).

 

Farbann: 

Með farbanni er ferðafrelsi sakbornings skert, oftast með þeim hætti að viðkomandi er bannað að fara af landi brott.  Dómari  getur t.d. úrskurðað sakborning í farbann í stað þess að úrskurða hann í gæsluvarðhald.

 

Kyrrsetning eigna: 

Lögreglan getur krafist kyrrsetningar eigna sakbornings ef hætta er talin á að eignum verði skotið undan eða þær glatist eða rýrni verulega. Þetta getur lögreglan gert til að tryggja greiðslu sektar, sakarkostnaðar og upptöku ávinnings sem aflað hefur verið með broti. 

 

Skoðun sérfræðinga:  

Lögreglan getur farið fram á sérfræðilega skoðun eða rannsókn í þeim tilgangi að upplýsa mál, t.d. að læknisskoðun, efnafræðilegri rannsókn eða rithandar- eða bókhaldsrannsókn verði framkvæmd. 

Lögreglan getur einnig óskað eftir réttarlæknisfræðilegri líkskoðun teljist hún nauðsynleg í þágu rannsóknar. 

Þá getur lögreglan óskað eftir réttarkrufningu telji hún það nauðsynlegt. Til þess þarf leyfi dómara (dómsúrskurð) nema nánasti venslamaður hins látna samþykki hana.