Dómsmálaráðherra hefur birt löggæsluáætlun fyrir árin 2019 – 2023 (1). Snarrótin hefur rýnt í áætlunina og telur ástæðu til að koma ákveðnum athugasemdum á framfæri.
Í áætluninni er að finna áherslur og stefnur lögreglunnar til næstu fimm ára. Í henni er fjallað um skilgreind markmið innan einstakra löggæslusviða og þá mælikvarða sem nota á til að meta hvort þeim hafi verið náð. Um tilgang þessarar aðferðarfræði segir m.a. „Með þessari aðferð er gert ráð fyrir að niðurstöður mælinga á grundvelli áætlunarinnar muni gera stjórnvöldum kleift að ráðstafa opinberu fé með skilvirkari hætti en áður.“
Mælikvarðar áætlunarinnar á ofbeldisbrot á borð við líkamsárásir, kynferðisbrot og heimilisofbeldi snúa í öllum tilfellum að því að draga úr brotunum, alvarleika brotanna eða að auka fjölda tilkynntra brota. Allt eru það mælikvarðar sem nokkuð augljóslega tengjast brotunum og skaðanum sem þau valda með beinum hætti. Þá skulu skilgreindar mennta- og þjálfunarkröfur lögreglunnar miða að því að auka þekkingu á rannsóknum á hatursglæpum, mansalsmálum og netglæpum, sem bendir til þess að þar eigi að styðjast við gagnreyndar aðferðir við löggæsluna.
Gagnvart vímuefnabrotum er hins vegar aðeins einn mælikvarði tilgreindur, sá að „Hlutfall barna og ungmenna sem samkvæmt könnunum segjast hafa notað fíkniefni verði undir 5%.“ Hvergi er útskýrt af hverju þessi tiltekni mælikvarði er valinn.
Að mati Snarrótarinnar er þessi mælikvarði, að miða við hlutfall barna og ungmenna sem prófa vímuefni, mjög ómarkviss. Í fyrsta lagi er þetta einfaldlega ekki góður mælikvarði á skaðsemi vímuefna: Fæst þeirra barna og ungmenna sem einhvern tímann prófa vímuefni þróa með sér vandamál tengd þeim (2). Því væri nærtækara að horfa til áhrifa sem eru augljóslega skaðleg, eins og hlutfalls ungmenna sem lendir í vímuefnavanda eða dauðsfalla vegna vímuefna. Í öðru lagi er óljóst hvernig nákvæmlega lögregluaðgerðir eiga að ná fram þessu markmiði: Hlutfall barna og ungmenna sem prófa vímuefni veltur á ýmsum þáttum en fæstir þeirra hafa með framboð vímuefna að gera (3).
Reynslan sýnir almennt að aukin löggæsla skilar sér ekki í minni eftirspurn eftir ólöglegum vímugjöfum, en hefur þvert á móti í för með sér víðtækan skaða (4, 5). Þetta kemur berlega í ljós hér á landi: tölur frá Landlækni annars vegar og Evrópsku eftirlitsstofnuninni með vímuefnum og vímuefnamisnotkun (EMCDDA) hins vegar benda til þess að notkun ólöglegra vímuefna sé útbreiddari hér á landi en í Evrópu (6, 7), þrátt fyrir landfræðilegar hömlur á innflutningi efna og harkalega stefnu í vímuefnamálum. Svipaðar upplýsingar má finna í gögnum Norrænu velferðarnefndarinnar (8). Sú refsistefna sem hingað til hefur verið fylgt hér á landi hefur valdið skaða og aukið vandann í stað þess að draga úr honum, líkt og annars staðar í heiminum þar sem þessum heilbrigðisvanda er mætt af skilningsleysi stjórnvalda. Dæmi um þetta má jafnvel finna í skýrslu greiningardeildar lögreglunnar sjálfrar um skipulagða glæpastarfsemi: „Aukinn styrkur og hreinleiki fíkniefna í Evrópu er m.a. rakinn til viðleitni stjórnvalda til að herða eftirlit og takmarka aðgang að íblöndunarefnum (sem nýtt eru til að þynna/drýgja vímuefni). Sérfræðingar telja þessar aðgerðir stjórnvalda einn áhrifaþátt í fjölgun þeirra sem leita sér aðstoðar vegna kókaínneyslu og dæmi um ófyrirséðar afleiðingar tilrauna til að stemma stigu við vandanum.“ (9).
Í áætluninni segir síðan þetta um hvernig ná eigi fram markmiðinu um færri börn og ungmenni sem prófa vímuefni: „Aukin frumkvæðislöggæsla á sviði fíkniefnabrota þar sem markvisst er unnið að því að styrkja aðgerðir gegn innflutningi, framleiðslu og sölu fíkniefna.“
Orðið frumkvæðislöggæsla er hvergi skilgreint í löggæsluáætluninni sjálfri, en ætla má að í henni felist einna helst leit á einstaklingunum sjálfum, í híbýlum hans og öðrum hirslum, handtöku, líkamsrannsóknum, haldlagningu muna, símahlustun og öðru eftirliti. Um er að ræða þvingunarúrræði sem fela í sér skerðingu á mikilvægum mannréttindum á borð við persónufrelsi, friðhelgi einkalífs og eignarétt. Úrræði sem einkennast af valdbeitingu eða hótun um hana (10).
Allt eru þetta aðgerðir sem meira að segja löggjafinn sjálfur telur í eðli sínu skaðlegar, enda hefur hann lögfest í sakamálalögum ákvæði sem veitir mönnum bætur ef þeir verða fyrir þeim, þ.e. hafi mál þeirra verið fellt niður eða þeir sýknaðir (11). Fram til þessa hefur fjölda einstaklinga verið dæmdar bætur á grundvelli þess (12).
Er þetta í samræmi við þróunina í nágrannaríkjum okkar, sem sum ganga svo langt að einstaklingar fá svo til sjálfkrafa bætur fyrir inngrip af þessu tagi. Sem dæmi setur ríkissaksóknarinn í Danmörku árlega viðmið um miskabætur fyrir umrædd brot, þannig eru bætur fyrir frelsisskerðingu í eina til fimm klukkustundir rúmlega 50.000 ISK og fyrir einn dag eru þær fastar um 130.000 ISK. Þess ber að geta að íslenskir dómstólar leggja svipuð sjónarmið og birtast í dönskum viðmiðunum til grundvallar þegar þeir dæma mönnum bætur fyrir frelsissviptingu. Þetta sýnir ágætlega hversu alvarlegum augum stjórnvöld líta á inngrip sem þessi.
Hér er einnig mikilvægt að hafa í huga að þeir einstaklingar sem standa höllum fæti og eru jaðarsettir í samfélaginu verða mest fyrir barðinu á þess háttar löggæslu og valdbeitingu. Einstaklingar sem eru með alvarlegan vímuefnavanda þurfa oft á tíðum að leggja mikið á sig til að fjármagna vímuefnanotkunina. Þetta eykur skaða bæði fyrir einstaklinginn sjálfan og allt samfélagið í heild sinni.
Af framansögðu er ljóst að einnig þarf að reikna með skaðanum sem þær aðferðir sem beitt er í stríðinu gegn vímuefnunum hafa í för með sér. Ekki er að sjá að hvaða marki það hefur verið gert í löggæsluáætluninni, þar sem nánari afmörkun á því hvað felst í frumkvæðislöggæslu á þessu sviði vantar.
Víða erlendis hefur löggæsla þróast í öfuga átt við þá sem mörkuð er í löggæsluáætluninni, enda hafa virtar alþjóðastofnanir á borð við Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina hvatt til að bundinn verði endir á hið svokallaða fíknistríð, og farið verði að nálgast þetta málefni frá réttum enda, það er að segja sem velferðar- og heilbrigðismál (13, 14, 15). Nú nýverið kom út nýjasta skýrsla Alþjóðaráðs Sameinuðu þjóðanna um vímuefnastefnu (e. Global Commission on Drug Policy), sem eru ein virtustu samtök í heiminum í stefnumótun í vímuefnamálum. Sem fyrr eru tilmæli stofnunarinnar þau að ríki heimsins dragi úr löggæslu og fangelsun fólks í vímuvanda (16). Ekki er langt síðan Pompidou-nefnd Evrópuráðsins mælti með afglæpun (17) og örfáar vikur eru síðan ráð þrjátíu og einnar undirstofnana SÞ, með aðalritarann í fylkingarbrjósti, mælti með afglæpun (18). Norðmenn eru á góðri leið með að afglæpavæða vörslu, að byggja upp neyslurými og jafnvel heróínklíník. Meira að segja hér á Íslandi unnu heilbrigðisráðuneytið og velferðarnefnd Alþingis nýverið með lagafrumvarp sem ætlað var að lögleiða neyslurými, með þeirri einróma niðurstöðu velferðarnefndar að mælt væri með þeirri leið að afglæpavæða vörslu neysluskammta að fullu (19).
Það skýtur því skökku við að sjá að í áætlun fyrir komandi ár skuli íslensk löggæsla ætla sér að halda í sömu gömlu stefnuna og jafnvel herða á henni. Sá hluti löggæsluáætlunarinnar þar sem fjallað er um vímuefni gengur þvert gegn ríkjandi alþjóðlegum straumum. Með löggæsluáætluninni, sem virðist algjörlega aftengd þeirri vinnu sem er verið að vinna á öðrum vettvangi hins opinbera, skipa íslensk stjórnvöld sér í hóp mestu afturhaldsríkja í veröldinni. Niðurstaðan verður áframhaldandi tollur á íslenskt þjóðfélag, í formi fjárhagslegs, lýðheilsufræðilegs og tilfinningalegs kostnaðar. Ef að markmið áætlunarinnar og aðferðafræði hennar er skilvirkari nýting á opinberu fé er augljóst að þar mætti vanda betur til verka. Fara þarf mun ítarlegar yfir það hverjir bestu mælikvarðarnir á skaðsemi vímuefna eru og hvernig er best að draga úr skaðseminni án þess að valda frekari skaða með lögregluaðgerðum.
Snarrótin biðlar því til stjórnvalda, dómsmálaráðherra og fulltrúa lögreglunnar, að skýra ástæður þess að haldið sé áfram á sömu braut. Við biðjum um að greint verði frá því eftir hvaða fyrirmyndum og stöðlum var farið eftir við gerð löggæsluáætlunarinnar og hvaða rök eru fyrir því að nota ómarkvissa mælikvarða á árangur í málaflokki vímuefna. Einnig biðlum við til ofangreindra aðila að taka þann hluta löggæsluáætlunarinnar sem snýr að vímuefnum til endurskoðunar, í samvinnu við heilbrigðis- og félagsmálayfirvöld, og nýta til þess þá yfirgripsmiklu vísindalegu þekkingu sem til staðar er í heiminum í dag um það hvaða aðferðir virka best til að draga úr skaðsemi vímuefna án þess að ganga á mannréttindi einstaklinga.
- https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2019/05/07/Loggaesluaaetlun-2019-til-2023/
- https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/17606817
- https://www.drugabuse.gov/publications/principles-substance-abuse-prevention-early-childhood/chapter-2-risk-protective-factors
- https://www.theguardian.com/society/2019/may/13/uk-demand-for-illegal-drugs-as-strong-as-ever-says-agency-chief
- http://www.drugpolicy.org/issues/drug-war-statistics
- http://www.emcdda.europa.eu/system/files/publications/11364/20191724_TDAT19001ENN_PDF.pdf
- https://www.landlaeknir.is/utgefid-efni/skjal/item37336/
- https://nordicwelfare.org/nyheter/new-report-describes-cannabis-policy-and-legislation-in-the-nordic-countries/#pll_switcher
- https://www.logreglan.is/skyrsla-greiningardeildar-um-skipulagda-glaepastarfsemi-2019
- Sakamálaréttarfar. Rannsókn, þvingunarráðstafanir e. Eirík Tómasson (2012)
- 246. gr. sakamálalaga, https://www.althingi.is/lagas/nuna/2008088.html
- Bætur vegna sakamála eftir Eirík Jónsson, birtist í Stefánsbók (2018)
- https://www.who.int/en/news-room/detail/27-06-2017-joint-united-nations-statement-on-ending-discrimination-in-health-care-settings
- https://www.who.int/hiv/pub/guidelines/keypopulations/en/
- https://transformdrugs.org/un-chief-executives-endorse-decriminalisation/
- www.globalcommissionondrugs.org/wp-content/uploads/2019/06/ENG-PP2019_DeprivationLiberty_WEB.pdf
- https://www.coe.int/en/web/pompidou
- https://www.unsceb.org/CEBPublicFiles/CEB-2018-2-SoD.pdf
- https://www.althingi.is/altext/149/s/1723.html