Hvernig væri mynd okkar af áfengisneytendum ef áfengi væri bannað?

Horfið væri rauðvínið með villibráðinni, horfin væru osturinn og léttvínið með ástinni þinni. Horfnar væru spaklegar samræður yfir kaffi og góðu koníaki. Horfinn væri bjórinn með ensku knattspyrnunni á laugardögum. Þorrablót breyttust í þerrihjalla og aldrei framar yrði skálað í stórafmælum.

Myndin af fólki sem notar áfengi sér til unaðsbótar væri horfin með öllu.

Í hennar stað kæmi einungis helsvört mynd af áfengisfíkli. Mynd af skorpulifur og heila, gegnsósa af áfengi. Mynd af deyjandi áfengisglæpamanni með stútinn í kjaftinum. Mynd af alblóðugum slagsmálahundum utanvið skemmtistaði.

Vinbúðum yrði lokað og glæpamönnum falið að sjá um skattlausa áfengissölu. Landasmyglarar og áfengisdílerar yrðu auðugir á einni nóttu.

Mynd af áfengisfíklum mígandi og skítandi í húsagörðum. Mynd af allsnöktu, sótdrukknu fólki dansandi uppá borðum.

Mynd af ölvuðu fólki sem veltist um í göturæsinu. Mynd af lögreglumönnum að yfirbuga brennivínsóða fíkla. Mynd af sérsveitinni að brjóta upp hurðir meintra áfengisneytenda. Mynd af blaðamannafundi lögreglunnar með skipsfarm af haldlögðu búsi.

Fjölmiðlarnir myndu jarma hástöfum um brennivínsbölið og áfengisfíklana og lögreglan tengja þá við alla glæpi, svo á himni sem á jörðu.

Og fjölmiðlar hættu að tala um ilm af eik í nefi og örlítið ávaxtabragð aftarlega á tungunni. Coq de Vin yrði refsiverð matreiðsla. Vínbúðum yrði lokað og glæpamönnum falið að sjá um skattlausa áfengissölu. Brennivínssmyglarar og áfengisdílerar yrðu auðugir á einni nóttu.

Bankarnir tútnuðu út af kolsvörtum brennivínsgróða. Lögreglumenn og tollverðir yrðu ráðnir uppá hlut hjá áfengismafíum heimsins. Skotbardagar og morð yrðu hversdagsfréttir eins og í Chicago í gamla daga.

Hvílík framför og samfélagsbót væri áfengisbann. Hvílík blessun er útskúfunar og refsihyggja í fíknivörnum.

Hér er sýnishorn af áfengisfíklum. Svona yrði mynd okkar af áfengisneytendum.


 

PéturÞorsteinsson er fyrrverandi skólastjóri, lengst af á Kópaskeri. Áhugamaður um uppeldismál, afbrotafræði og mannúðlegt samfélag. Pétur er formaður Snarrótar – Samtaka um borgaraleg réttindi.

Fréttabréf Snarrótarinnar

Skráðu þig á póstlistann og fáðu fréttir og tilkynningar um viðburði.

Netfangið þitt er trúnaðarmál og er ekki gefið öðrum. Þú getur skráð þig af listanum hvenær sem er.