Blaðamaðurinn og metsöluhöfundurinn Johann Hari dvelst þessa dagana á Íslandi í tilefni af útgáfu íslenskrar þýðingar hinnar margrómuðu bókar hans Chasing the Scream en í þýðingu Halldórs Árnasonar heitir bókin Að hundelta ópið: Upphaf og endir fíknistríðsins og bætist hún senn í jólabókaflóðið.

Hari mun flytja fyrirlestra á tveimur fundum, öðrum fimmtudaginn 14. nóvember en hinum föstudaginn 15. nóvember. Báðir fundirnir eru haldnir í stofu 101 í Odda frá 16:30 – 18:00. Fundurinn á fimmtudaginn er á vegum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands en fundurinn á föstudaginn er á vegum Snarrótarinnar, Rótarinnar og Frú Laufeyjar.

Fimmtudagsfundinn má sjá hér á Facebook. Þar er nálgunin akademískari, útgangspunkturinn er spurningin Er stríðið við fíkniefnin tapað?

Föstudagsfundurinn er hér. Þar er nálgunin nær grasrótinni, útgangspunkturinn er spurningin Af hverju þarf Ísland á skaðaminnkandi hugmyndafræði að halda?

Áhugasöm eru eindregið hvött til að mæta á báða fundina þar sem nálgunin á viðfangsefnið er ögn ólík eftir fundum – en að sjálfsögðu er lágmark að mæta á annan þeirra.

Loks er ekki úr vegi að minnast á útgáfuhóf sem Nýhöfn, útgefandi þýddu útgáfunnar, heldur á laugardaginn klukkan 14:00 í Grófinni (Tryggvagötu 15).

Johann Hari er verðlaunablaðamaður sem hefur í seinni tíð einbeitt sér að bókaskrifum. Bók hans frá 2015 um fíknistríðið, Chasing the Scream, rataði á metsölulista New York Times og hefur fengið margar lofsamlegar umsagnir, meðal annars frá Noam Chomsky, Sam Harris, Elton John, Naomi Klein, Stephen Fry, Glenn Greenwald – og síðast en ekki síst prófessor David Nutt sem kom hingað til Íslands árið 2014 og hélt fyrirlestur í boði Snarrótarinnar Félags- og mannvísindadeildar Háskóla Íslands.

Í bókinni rekur hann á hispurslausan hátt upphaf og þróun glæpavæðingar vímuefna – hins svokallaða fíknistríðs – og þann mannlega harmleik sem hún hefur haft í för með sér. Óhætt er að segja að Hari tæti í sig margar af forsendunum sem þessi stefna er byggð á og þannig leggur hann grundvöllinn að nýrri nálgun, þeirri sem Snarrótin hefur barist fyrir allt frá stofnun, mannúðlegri vímuefnastefnu sem byggist á skaðaminnkun og gagnreyndum aðferðum.

Upptaka af föstudagsfyrirlestrinum

Fréttabréf Snarrótarinnar

Skráðu þig á póstlistann og fáðu fréttir og tilkynningar um viðburði.

Netfangið þitt er trúnaðarmál og er ekki gefið öðrum. Þú getur skráð þig af listanum hvenær sem er.