Prófessor David Nutt dvelst á Íslandi frá 13. til 17. september, í boði Snarrótarinnar. Hann flytur opinberan fyrirlestur um vímuefnamál og vímuefnastefnu, þriðjudaginn 16. september, kl. 16:30 – 18:00 í stofu 102 á Háskólatorgi. Að fyrirlestri loknum verða pallborðsumræður. Fyrirlesturinn er samstarfsverkefni Félags- og mannvísindadeildar Háskóla Íslands og Snarrótarinnar – samtaka um borgaraleg réttindi. Dr. Helgi Gunnlaugsson, prófessor, verður fundarstjóri. Fyrirlesturinn er ókeypis og öllum opinn.

Prófessor David Nutt er heimsþekktur breskur vísindamaður og sérfræðingur um vímuefnamál. Hann hefur getið sér gott orð fyrir miskunnarlausa gagnrýni á hræðsluáróður og rangfærslur stjórnmálamanna og fjölmiðla í vímuefnamálum, en einnig hlotið skrokkskjóður fyrir óþægilegan heiðarleika og hreinskilni, ekki síst vegna greina sem hann skrifaði um hættur af völdum ýmissa vímuefna.

David Nutt hefur birt rúmlega fjögur hundruð rannsóknargreinar í viðurkennd fagtímarit, álíka fjölda umsagna og bókakafla, fjölda opinberra greinargerða um lyf og vímuefni og alls tuttugu og sex bækur.

Hann benti á að reiðmennska að breskum hætti veldur samfélaginu ívið meiri háska en MDMA (svonefnd e-tafla). Hann sýndi fram á að löglegu fíkniefnin, áfengi og tóbak, eru miklu hættulegri en kannabis og raunar flest ólögleg vímuefni.

Í stuttu máli sýndi hann fram á að flokkunarkerfi vímuefna, sem bresk löggjöf byggist á, er mestan part hjávísindi og stenst ekki fræðilega gagnrýni. Fyrir það var hann rekinn úr starfi aðalráðgjafa bresku ríkisstjórnarinnar í vímuefnamálum.

Nú kann einhver að halda að David Nutt sé ruglukollur sem enginn tekur mark á. Því fer fjarri. Hann er nýkjörinn forseti Evrópska heilarannsóknaráðsins (European Brain Council), prófessor í tauga- og geðlyfjafræði og formaður geðlyfjafræðihóps við rannsóknardeild Imperial College í London.

Hann er forseti Óháðu vísindanefndarinnar um vímuefni (ISCD), forseti Evrópuháskólans í taugageðlyfjafræði (ECNP) og nýkjörinn forseti Sambands breskra taugavísindamanna, svo fátt eitt sé nefnt af trúnaðarstöðum hans á vísindasviðinu, innan Bretlands og í alþjóðlegu samstarfi. Að auki hefur hann ritstýrt tímaritinu The Journal of Psychopharmacology í rúman áratug.

David Nutt hefur birt rúmlega fjögurhundruð rannsóknargreinar, álíka fjölda umsagna og bókakafla, átta álits- og greinargerðir um lyf og fíkniefni og tuttugu og sex bækur. Sú síðasta, Drugs Without the Hot Air, er góð kynning á störfum hans og hugmyndum. Árið 2010 taldi tímaritið Times Eureka David Nutt á meðal hundrað áhrifamestu einstaklingana í bresku vísindasamfélagi.

David Nutt er tíður gestur í sjónvarpi og útvarpi og mjög eftirsóttur fyrirlesari, enda einkar lagið að setja mál sitt fram með aðgengilegum hætti.

Fréttabréf Snarrótarinnar

Skráðu þig á póstlistann og fáðu fréttir og tilkynningar um viðburði.

Netfangið þitt er trúnaðarmál og er ekki gefið öðrum. Þú getur skráð þig af listanum hvenær sem er.