Hinn heimskunni mannréttindalögfræðingur Damon Barrett verður gestur Snarrótarinnar – samtaka um borgaraleg réttindi, 17. til 21. febrúar næstkomandi. Hann flytur opinberan fyrirlestur um mannréttindabrot í skugga fíknistríðsins, þann 19. febrúar kl 16:30-18:00, í stofu 102 Háskólatorgi. Fyrirlesturinn er samstarfsverkefni Félags- og mannvísindadeildar Háskóla Íslands og Snarrótarinnar.

Damon Barrett á drjúgan þátt í að draga mannréttindabrot í skugga fíknistríðsins fram í dagsljósið.

Damon Barrett er fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri Harm Reduction International (IHRA) og stofnandi og framkvæmdastjóri International Centre on Human Rights and Drug Policy (ICHRDP), sem starfar innan vébanda hins virta Mannréttindaseturs Háskólans í Essex.

Damon hefur birt fjölda greina og bókarkafla, jafnt í ritrýndum tímaritum sem á útbreiddum vefmiðlum.

Hann situr í ritnefnd International Journal of Drug Policy og ritstýrir tímaritinu Human Rights and Drugs.

Damon hefur unnið fyrir ýmsar alþjóðastofnanir, þar á meðal alþjóðlegu skaðminnkunarsamtökin IHRA, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina og Sameinuðu þjóðirnar.

Damon er kvæntur sænskri konu, býr í Gautaborg og stundar doktorsnám við lagadeild Háskólans í Stokkhólmi.

Hann er í þröngum hópi helstu fræðimanna á þessu sérsviði fíknistefnu og mannréttinda.

Damon Barrett hefur um árabil rannsakað jaðaráhrif fíknistefnu (drug policy) á mannréttindi í heiminum, ekki síst á réttindi barna og ungmenna, auk þess heilsutjóns sem útskúfunar- og refsihyggjan kallar yfir fíknisjúka.

Snarrótin minnir á, að meðal flestra vestrænna þjóða færist þungamiðja fíknivarna í æ ríkari mæli frá útskúfunar- og refsihyggju í átt til fíknistefnu sem á rætur í hugsjónum um vernd mannréttinda og bætta heilsu mannkynsins.

Damon Barrett á drjúgan þátt í að draga mannréttindabrot í skugga fíknistríðsins fram í dagsljósið og inn í kjarna umræðunnar um nauðsynlegar réttarbætur í fíknivörnum.

Damon Barrett mun ræða við fjölmiðla og stjórnmálamenn, auk þess sem Snarrótin hefur áhuga á að koma á sérstökum rabbfundi hans með íslenskum lögfræðingum og áhugamönnum um mannréttindi og réttarfar.

Hér rekur Damon Barrett hvernig meðalhófsreglunni er vikið til hliðar í fíkniefnamálum

Skaðaminnkun er nálgun við fólk sem á við erfiðan vímuefnasjúkdóm að stríða og hefur verið notuð til að minnka þann skaða sem vímuefnaneysla hefur í för með sér, með reyndum árangri. Nálgunin felur í sér að draga úr þeim heilsufarslega, fjárhagslega og félagslega skaða sem hægt er að fyrirbyggja. Þáttur í því er að beita aðgerðum sem minnka líkur á því að þeir einstaklingar sem neyta ólöglegra vímuefna fái á sig neikvæðan stimpil. Með skaðaminnkandi nálgun er litið á vímuefnasjúkdóm sem viðfangsefni heilbrigðiskerfisins og að þar með sé þörf á því að endurskoða viðurlagapólitík stjórnvalda þegar kemur að minniháttar vímuefnabrotum. — Úr Skaðminnkun vímuefnastefnu. Samanburður á stefnu Hollands, Portúgal og Kanada eftir Sunnevu Tómasdóttur og Þórhildi S. Blöndal.

Fréttabréf Snarrótarinnar

Skráðu þig á póstlistann og fáðu fréttir og tilkynningar um viðburði.

Netfangið þitt er trúnaðarmál og er ekki gefið öðrum. Þú getur skráð þig af listanum hvenær sem er.