Kæri Baldur,

Þú hefur vakið töluverða athygli fyrir skoðanir þínar á vímuefnavanda og tillögur að lausnum. Við fögnum áhuga þínum og áhyggjum af lýðheilsu borgara þessa lands, bæði þeirra sem eiga í vandræðum með vímuefnaneyslu, sem og annarra samborgara. Við deilum nefnilega mörgum af áhyggjum þínum með þér og viljum gjarnan fá sem flesta að borðinu að vinna að umbótum í málaflokknum sem að mörgu leyti er í ólestri.

Við viljum hins vegar góðfúslega leiðrétta nokkur atriði  í málflutningi þínum sem virðast byggjast á þekkingarleysi, með því augnamiði að gefa þér tækifæri á að taka upplýstari ákvarðanir um það hvaða leiðir þú styður að takmarkinu. Við ætlum að ganga út frá því að þú brennir fyrir velferð fólks sem á við vímuefnavanda að stríða og sért að leita allra leiða til að hjálpa því.

Okkur langar þá að byrja á því að ræða aðeins eðli vímuefnavanda. Vímuefnavandi er nefnilega einkenni, en ekki orsök. Oft kannski mest áberandi einkennið, en orsökin liggur í tilfinningakerfum okkar og upplifun okkar á stjórn á eigin lífi. Okkar allra sterkasta eðlihvöt er nefnilega að upplifa öryggi. Til þess að útskýra nánar hvað átt er við hér, ber að horfa aðeins á manneskjuna og hvernig hún er sett saman.

Sem áður segir, þá erum við, líkt og aðrar lífverur, byggð þannig að okkar allra stærsta eðlishvöt er að halda lífi. Til þess höfum við kerfi, svokallað miðtaugakerfi, sem hjálpar okkur að nema hættu í umhverfi okkar og bregðast við henni. Kerfið er tvíþætt, annars vegar svokallað sympatískt taugakerfi, hins vegar svokallað parasympatískt taugakerfi. Sympatíska kerfið okkar flytur svokallað fight or flight viðbragð um kerfið okkar. Þessi viðbrögð undirbúa lífveruna undir líkamleg átök, því því er ætlað að koma okkur í topp stand til að annað hvort berjast við hættuna, eða flýja undan henni. Þetta kerfi er um 400 milljóna ára gamalt. Þegar þetta kerfi virkjast í fólki upplifum við reiði eða kvíða.

Parasympatíska kerfið okkar er svo tvíþætt. Annars vegar flytur það boð um lífshættu, og kerfið bregst þá með, með því að keyra okkur niður í lömunarástand, svokallað freeze eða shutdown ástand. Við lömumst með öðrum orðum af hræðslu. Þessi hluti parasympatíska kerfisins er elsti hluti kerfisins, um 500 milljóna ára gamall. Hinn hluti kerfisins er um 200 milljóna ára gamall. Sá hluti kerfisins flytur boð um öryggi og tengingu við aðra í kringum okkur inn í líkama okkar. Þetta kerfi róar niður kvíðakerfin okkar tvö (flight-flight og shutdown). Manneskjan er nefnilega gerð til að tengjast öðrum og lifa í samfélagi. Frá fyrstu stundu er það okkur bráðnauðsynlegt að mynda tengingar við annað fólk í kringum okkur – án þeirra lifum við bókstaflega ekki af fyrstu árin okkar.

Eins og þú sérð á aldri kerfanna, eru þau mun eldri heldur en mannskepnan, reyndar eldri heldur en spendýrin, enda deilum við fight-flight og shutdown með flestum öðrum skynverum. Við ráðum lítið við þessi kerfi ef þau eru í ólestri; staðreyndin er sú að þetta kerfi ákveður viðbrögð okkar. Það flytur svo boðin upp til heilans, sem þá býr til sögu um það af hverju við högum okkur á þann hátt sem við högum okkur.

Þegar þetta kerfi fer í gang beitum við margs konar aðferðum til að róa það niður. Aðferðirnar geta verið hjálplegar og uppbyggjandi, t.d. að sækja sér styrk og tengingu til annars fólks, að finna frið í náttúrunni, að nota tónlist, söng, dans, eða að reyna að breyta aðstæðum okkar á þann hátt að við upplifum okkur örugg að nýju. Eða þær geta verið óhjálplegar og skemmandi. Að misnota vímuefni er aðeins ein þeirra skemmandi aðferða sem við mannfólkið notum, en er sú leið sem er kannski mest litið niður á og þá misnotendur sumra efna meira en annarra. Það er meira samfélagslega viðurkennt að sökkva sér í þrotlausa vinnu, deyfa sig með öðrum aðferðum en vímuefnum, eða halda áfram á hnefanum í gegnum lífið og ganga á eigin drifkraft smám saman þar til við erum komin í þrot. 

Þegar við upplifum ekki stjórn á eigin lífi, þá virkjast kvíðakerfin okkar. Þegar fólk er orðið jafn langt leitt í vímuefnaneyslu og það fólk sem neyslurými eru að þjónusta, þá er flókinn vandi að baki, sem með einum eða öðrum hætti ofhleður kvíðakerfið. Þetta er þá fólk sem upplifir enga stjórn á eigin lífi. Hvorki yfir sjálfu sér né aðstæðum sínum. Það eina sem „virkar“ fyrir fólk sem er komið á þennan stað er víman. Vitaskuld er það erfiður vítahringur en þegar fólk hefur ekki betri aðferðir til að róa niður kerfin sín heldur en að grípa til vímugjafa, þá geturðu séð hvernig það að taka völdin af veiku fólki er til þess fallið að keyra kvíðakerfin enn frekar upp, og auka á vandann. Það brýtur ekki niður vítahringinn heldur viðheldur honum.

Þegar kemur að því að meðhöndla vímuvanda skiptir því miklu máli að vera meðvitaður um að meðhöndla hinn undirliggjandi vanda – upplifaða stjórn á eigin lífi – ekki síður en fíknina sjálfa. Sem betur fer er meðvitund um þessa staðreynd að aukast í heiminum í dag, hversu  mikilvægt það er að skapa aðstæður fyrir fólk í þessari stöðu til að upplifa sig við stjórn á eigin lífi. Stjórnleysið er nægilega mikið innan líkama þess, og saga vantrausts á öðru fólki er oft eitthvað sem teygir sig langt inn í fortíð þess og uppvaxtarár og er ein rót vanda þess.

Þetta þýðir að eitt það allra mikilvægasta í meðferðarstarfi er að mæta fólki sem er á þessum stað með virðingu og viðurkenna sjálfsákvörðunarrétt þess yfir eigin líkama. Aðeins með því að gefa fólki skilaboð um öryggi, skilning og virðingu býrðu til grundvöll fyrir því að manneskja þori að stíga þau erfiðu skref sem nauðsynleg eru til bata. Og já, í sumum tilfellum getur þetta útheimt að meðferðaraðilar kjósi að halda fólki sem á við virkan vímuvanda að stríða inni í kerfinu með stuðningi frekar en að henda því út á götu í stjórnleysið. Þetta er því síður en svo „sýndarmannúð“ heldur er verið að vinna með aðferðir sem hafa sannað gildi sitt.

Að neyða manneskjur í meðferð er hins vegar í augljóslega ekki vænlegt til árangurs þar sem það eykur bara á stjórnleysistilfinninguna. Það bætir gráu ofan á svart í öllum samskiptum manna á milli að taka völdin af fólki. Líka þegar fólk er stórhættulegt sjálfu sér og öðrum. Hér má vissulega taka fram að stundum þarf að taka fólk úr umferð ef það er mjög hættulegt umhverfi sínu (t.d. í þeim tilfellum þar sem um síendurtekið ofbeldi er að ræða), en hins vegar er það vitað mál innan sálfræðinnar að refsingar virka ekki nema mjög takmarkað til að fæla fólk frá ákveðinni hegðun. Ef refsistefna virkaði væri lítið um glæpi í samfélaginu. Sem leiðir okkur að næsta punkti. 

Þú nefnir að afglæpavæðing vímuefna sé draumagjöf vímuefnasala og innflytjenda vímuefna. Því fer nefnilega fjarri. Þetta eru þeir aðilar sem í dag hagnast á því að halda vímuefnum innan hins svarta hagkerfis. Eðlilega vilja þessir hagsmunaaðilar alls ekki sjá efnin afglæpavædd, hvað þá regluvædd.

Ef horft er á tölfræðina yfir stríðið gegn vímuefnum þá er staðreyndin sú að um 1 trilljarður dollara hafa farið í það bara í Bandaríkjunum síðan Nixon hóf það. Þrátt fyrir það er staðreyndin sú að vímuefnaneysla er nú útbreiddari og algengari en nokkurn tímann áður. Stríðið gegn vímuefnum hefur brotið upp fleiri fjölskyldur og samfélög en tárum tekur, sem eykur enn á upplifað stjórnleysi og óöryggi einstaklinga. Afrakstur stefnunnar er með öðrum orðum sá að vandi hefur aukist og talið er að stríðið gegn vímuefnunum hafi kostað rúmlega 40 milljónir manna lífið.

Við sjáum það enda skýrt hvað gerist í þeim löndum sem hverfa frá refsistefnu og afglæpavæða, eða jafnvel regluvæða vímuefni. Í þeim löndum þar sem fallið hefur verið frá refsistefnu og sjálfsákvörðunarréttur fólks er virtur, hefur reynslan verið sú að vímuefnavandinn minnkar. Fólki er ekki hent út úr samfélaginu fyrir að ánetjast ólöglegu efni, heldur nær að byggja upp nægilegt traust á kerfinu, og sækir sér því frekar hjálp, þurfi það á henni að halda.

Og þetta er kjarni málsins. Að mæta fólki þar sem það er statt margfaldar nefnilega ekki vandann, eins og þú líkt og ýmsir aðrir hræðist að gerist og fullyrðir án raka að myndi gerast – heldur minnkar hann. Ekki tímabundið, heldur til frambúðar. Að koma fram við fólk af virðingu, að virða sjálfsákvörðunarrétt þess, að búa því aðstæður þar sem það upplifir stjórn á eigin lífi. Að bjóða því hjálp, en ekki skömm. Þetta eru leiðir sem virka og það eru rannsóknir og gögn sem sýna fram á það. 

Það er síðan ekki hægt að ljúka þessu bréfi án þess að minnast á þann misskilning þinn að Gistiskýlið hafi rekið neyslurými.

Þar viljum við byrja á því að fræða þig um hvað neyslurými eru. Neyslurými eru staðir þar sem einstaklingar með langt leiddan vímuefnavanda geta komið og neytt efna sinna í öruggu umhverfi. Þar vinnur heilbrigðisstarfsfólk, sem getur hlúð að fólki sem þangað kemur. Að það hafi verið látið óátalið að langt leiddir menn neyti efna sinna inni á salernum þar, er ekki það sama og að neyslurými hafi verið rekið þar. Neyslurými gera það að verkum að það fólk sem sækir þau þarf ekki að neyta vímuefna sinna á almennum stöðum, svo sem á leikskólalóðum eða á almenningssalernum, og gera því vandann minna sýnilegan almennum borgurum, en ekki meira, líkt og margir hræðast að gerist.

Neyslurými hafa tíðkast í yfir tvo áratugi á öðrum stöðum í heiminum, og er að fjölga, þar sem reynslan af rekstri þeirra hefur sýnt fram á að þau bjarga mannslífum, bæta heilsu, og gefa fólki tækifæri á því að byggja upp tengsl við kerfi sem hingað til hefur oftast mætt því af hörku og skilningsleysi á vanda þeirra. Sem eins og áður hefur verið nefnt að er forsenda þess að fólk vilji og treysti sér til að sækja þá hjálp sem það þarf á að halda, hjá téðu kerfi.

Þannig má sjá að neyslurými eru öllum til bóta, bæði þeim sem eiga í vanda með sína neyslu og þeim sem ekki vilja heyra af þeim né sjá. Það ættu því allir að geta glaðst yfir tilkomu þeirra. Það má jafnvel alveg taka undir gagnrýni þína á það að aðstæður í Gistiskýlinu séu að þessu leyti alls ekki kjöraðstæður og að betri úrræði skorti – en lausnin á þessu er ekki að hverfa aftur til þess að fólk í þessari stöðu hafi hvergi samastað nema á götunni heldur að koma upp alvöru neyslurými.

Í næstu viku mun bókin Chasing the Scream eftir Johann Hari koma út í íslenskri þýðingu Halldórs Árnasonar, undir nafninu Að hundelta ópið. Bókin gerir á áhugaverðan og yfirgripsmikinn hátt grein fyrir aðdraganda, ástæðum og framvindu fíknistríðsins svokallaða. Refsistefnunnar. Við mælum með að þú lesir bókina, því hún er bæði vel skrifuð og áhugaverð, og virkilega nauðsynlegt innlegg í þær umræður sem nú fara fram um þetta málefni. Við þökkum að lokum fyrir áheyrnina og vonum að þú sjáir ástæðu til að kynna þér málin vandlega og endurskoða afstöðu þína. 

 

Með vinsemd og virðingu,

Stjórn Snarrótarinnar

Fréttabréf Snarrótarinnar

Skráðu þig á póstlistann og fáðu fréttir og tilkynningar um viðburði.

Netfangið þitt er trúnaðarmál og er ekki gefið öðrum. Þú getur skráð þig af listanum hvenær sem er.