Við í Snarrótinni, samtökum um skaðaminnkun og mannréttindi, viljum byrja á að óska þér til hamingju með frábæran árangur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Það er fagnaðarefni að fá unga og skelegga manneskju til liðs við baráttuna gegn fíknivandanum.

Í viðtali við þig í Ísland í dag sem birtist á visir.is þann 12. maí síðastliðinn kemur berlega í ljós sá eldmóður sem þú berð í brjósti fyrir velferð þeirra sem lenda í fíknivanda.

Þar sem við deilum þessum eldmóði með þér og berjumst að sama markmiði, þá langar okkur að fræða þig um nokkra punkta.

Fíknistríðið og árangur þess

Bannstefnan gengur út frá því að vímuefnafíkn sé val og siðferðislegur persónugalli hjá manneskjum. Þannig hljóti að vera hægt að refsa hann í burtu. Fíknistríðið svokallaða hefur kostað íslenska skattgreiðendur yfir 75 milljarða króna síðan árið 1968. Á þeim tíma hefur neysla vímuefna farið stöðugt vaxandi og efnin hafa orðið harðari. Framboð fylgir eftirspurn, sem glöggt má sjá af frétt sem birtist á mbl.is í vikunni, þar sem sagt er frá því að neysla á kókaíni í Reykjavík hafi aukist um meir en helming síðan 2017. Þetta er sama þróun og við sjáum annars staðar í heiminum. Beinharðar tölur ljúga ekki: bannstefnan hefur ekki borið tilætlaðan árangur.

Það sem hefur hins vegar gerst með bannstefnunni er það að fólk sem misnotar vímuefni hefur verið gert að glæpamönnum og í kjölfarið færst stöðugt lengra út á jaðarinn. Það velur það nefnilega enginn að lenda í vandræðum með vímuefni.

Hvað veldur fíkn?

Þegar tölfræði yfir fíknivanda er skoðuð sést að tölurnar eru mjög svipaðar yfir efni. Flest fólk sem byrjar að fikta með vímuefni, gerir það á táningsárum, eða um 99%. Af þessum hópi halda flestir, eða um 80-90%, sig bara í fiktinu, prófa einu sinni eða tvisvar eða nota efnin hóflega eða sjaldan. Það eru þó 10-20% sem lenda í vandræðum með neyslu sína.

Af þessum 10-20% sem lenda í vandræðum með neyslu sína, munu langflestir hætta misnotkun sinni í kringum þrítugsaldurinn. Fólk eignast börn og tekur húsnæðislán og hefur hreinlega ekki tíma í ruglið. Það á þó því miður ekki við um alla, bara u.þ.b. 80-90% hópsins. Þá standa eftir 10-20%, sem þarf inngrip til að geta rétt stefnuna af.

Þessar tölur eru svipaðar hvort sem um er að ræða áfengi eða ólögleg vímuefni. Það eru 10-20 prósent af 10-20 prósentum, sem þarfnast hjálpar við sínum vanda.

Svo hvað skilur á milli?

Það sem skilur á milli er flókin samblanda erfða og umhverfis, bæði uppvaxtarsögu og umhverfis í barnæsku, ásamt núverandi umhverfi. Fólk með langa áfallasögu í uppvexti er svo dæmi sé tekið í mun meiri áhættuhópi á að þróa með sér fíknivanda en fólk sem ekki hefur langa áfallasögu.

Með öðrum orðum, fólk sem þróar með sér fíknivanda er veikt fólk, og það þarf hjálp.

Björgum lífum

Þó vímuefnið sem þú ert háð/ur sé löglegt, þá er ákveðin skömm sem fylgir því að vera háð/ur – vera „alki“ eða „fyllibytta“. Það fólk sem ánetjast áfengi á við ýmis vandamál sem fylgja fíkn að etja þar fyrir utan, líkt og að missa heilsu, fjölskyldu og líf í gin fíknarinnar. Þetta fólk sleppur þó við mörg vandamál sem fólk sem ánetjast öðrum efnum þarf að glíma við í ofanálag.

Ef þú ert að nota ólöglegt vímuefni en ekki löglegt þá þarftu að glíma við það að hika við að hringja á sjúkrabíl ef þú eða einhver í kringum þig tekur of stóran skammt – því það að bjarga lífi vinkonu þinnar þýðir að öllum líkindum endi á eigin lífi eins og þú þekkir það, þegar lögreglan sækir þig til saka fyrir vímugjafa þinn. Það er heldur ekki í boði að hringja á lögreglu ef maki þinn gengur í skrokk á þér, því þú veist hvað það hefur í för með sér fyrir þig. Þú færð ekki sömu læknisþjónustu og aðrir, þú hefur ekki rétt á sömu þjónustu og úrræðum og aðrir, og þú ert brennimerkt sem „dópisti“ í augum annarra landsmanna. Fólk er hratt að færast út á jaðarinn, þar sem skömmin verður óbærileg og kallar á næsta skammt.

Jafnvel fólk sem ekki á í neinum vandræðum með sína notkun á ólöglegum efnum tapar á bannstefnunni. Fjöldi fólks er að glíma við sálrænar afleiðingar ónauðsynlegra leita á persónu þeirra eða fórum, eftir rassíur lögreglu á útihátíðum. Áfallastreitueinkenni, jafnvel áfallastreituröskun, ásamt missi á trausti á lögregluna. Fólk sem hefur jafnvel aldrei komið nálægt efnum af nokkru tagi. Nú nýlega hafa komið upp nokkur dæmi þar sem beðið var um hjálp vegna veikinda, en Neyðarlínan sendi lögreglubíl í stað sjúkrabíls, vegna gruns um ólögleg efni. Ekki er langt síðan ung stúlka dó af þessum sökum.

Á hverju ári deyja mörg af ungmennum okkar vegna þess að sum vímuefni eru ólögleg. Þau deyja vegna þess að vinirnir hringja ekki á sjúkrabíl, þau deyja vegna þess að lögreglubíll er sendur í stað sjúkrabíls, þau deyja vegna þess að í stað fræðslu fengu þau hræðsluáróður, og þau deyja vegna þess að þeim er ýtt út á jaðarinn í skömm, í stað þess að vera umvafin og studd í átt að heilbrigði.

Breytum um aðferð

Refsistefna er ekki rétta leiðin. Hún hefur verið reynd í heila öld, og hefur kostað milljónir manna lífið, eyðilagt samfélög og fjölskyldur, og enn eykst vímuefnaneysla. Spurningin er þá hvort við séum tilbúin til að horfast í augu við raunveruleikann þegar aðferð virkar ekki sem skyldi eða skilar ekki tilsettum árangri. Ef þú ert með skrúfjárn sem virkar ekki fyrir tilsetta skrúfu og spólar bara, þá liggur beinast við að skipta yfir í skrúfjárn sem passar skrúfunni.

Til eru lönd sem hafa farið aðra leið. Þar sem vímuefnavandinn hefur verið orðinn það stór og erfiður viðureignar að stjórnvöld voru tilbúin að grípa til örþrifaráða: hlusta á vísindin, afglæpavæða eða regluvæða vímuefni, og setja peninginn í heilbrigðiskerfið og forvarnir í staðinn. Það er þeim löndum sammerkt að vímuefnavandinn snarminnkaði, glæpum fækkaði, ofbeldi minnkaði og meðalaldur þeirra sem misnota vímuefni hækkaði, þar sem ungmenni sækja minna í vímuefni þegar þau eru ekki lengur bönnuð og spennandi.

Nýlegar umræður hafa endurspeglað hve góð samstaða er innan Alþingis um afglæpavæðingu neysluskammta. Sextíu prósent landsmanna eru fylgjandi frumvarpinu. Fagfélög líkt og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Sálfræðingafélag Íslands og Fagdeild Geðhjúkrunarfræðinga á Íslandi stíga fram til undirtekta á löggjöfinni. Þá er umsögn Landlæknis jákvæð þó hún einkennist líka af varkárni. Alþjóðaheilbrigðisstofnun mælir með breytingum á ríkisstefnum yfir í sannreyndar aðferðir til þess að stemma stigu við vímuefnavandann.

Við hvetjum þig, Diljá, til að lesa bókina Að hundelta ópið eftir Johan Hari. Bókin segir sögu fíknistríðsins svokallaða og sýnir lesandanum hvernig stríðið gegn fíkniefnum er ekkert annað en stríð gegn fólki. Við í Snarrótinni erum svo alltaf til í samtal, hafirðu áhuga á að kynnast okkar starfsemi betur.

F.h Snarrótarinnar,

Bylgja Guðjónsdóttir Thorlacius

-birt á Visir.is þann 9. júní 2021

Fréttabréf Snarrótarinnar

Skráðu þig á póstlistann og fáðu fréttir og tilkynningar um viðburði.

Netfangið þitt er trúnaðarmál og er ekki gefið öðrum. Þú getur skráð þig af listanum hvenær sem er.