Nú er orðið ljóst að frumvarp heilbrigðisráðherra um afglæpavæðingu neysluskammta kemst ekki út úr nefnd, verður ekki tekið aftur til atkvæðagreiðslu og því verður þetta mál ekki klárað á kjörtímabilinu. 

Snarrótin telur að hér sé um gróf svik í garð fólksins sem líður fyrir gildandi refsistefnu að ræða, vísvitandi og meðvitaða ákvörðun um að láta þennan hóp mæta afgangi. Það er engan veginn ósanngjarnt að fullyrða að þessu fólki var lofað að því yrði veitt skjól fyrir afskiptum lögreglunnar fyrir um tveimur árum síðar þegar velferðarnefnd beindi þeim tilmælum til heilbrigðisráðherra að „vinna markvisst að því að afnema refsingar fyrir vörslu á neysluskömmtum fíkniefna“. Það er heldur ekki ósanngjarnt að fullyrða að þetta loforð hafi verið áréttað þegar þingmannafrumvarp um málið var fellt í fyrra og margir þingmenn útskýrðu afstöðu sína þannig að þeir styddu málið alveg efnislega en að það þyrfti að vinna það betur. Þetta loforð er síðan í fullu samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar en þar segir að snúa þurfi af braut harðra refsinga fyrir neyslu fíkniefna.

Engar efnislegar útskýringar hafa komið fram á því af hverju ekki var hægt að efna þetta loforð með því að klára þá vinnu sem heilbrigðisráðherra, í fullu umboði velferðarnefndar, ákvað að hefja. Í fjölmiðlum hefur hins vegar komið fram að ágreiningur hafi verið um það innan velferðarnefndar, þeirri sömu og hafði gefið út loforð um að hún myndi styðja við málið ef það kæmi frá heilbrigðisráðherra. Málið allt, frá upphafi til enda, er Alþingi til gríðarlegrar vanvirðu og í þessu felast skýr skilaboð um að þrátt fyrir hástemmdar og ítrekaðar yfirlýsingar og stefnumörkun ríkisstjórnarinnar þá er þingheimi sama um hagsmuni þolenda refsistefnunnar. Að dingla loforði um breytingar framan í þetta fólk en kippa því síðan til baka án útskýringar er meira en svívirða, það er grimmd.

Ofan á þessa svívirðu og grimmd bætist að það er ekki nóg með að ríkisstjórn og þing hafi ekkert gert til að bæta réttarstöðu neytenda vímuefna heldur hefur dómsmálaráðherra með einu pennastriki í reglugerð útvíkkað sérstakar heimildir lögreglunnar sem ná yfir öll fíkniefnabrot, þar með talið vörslu neysluskammta. Með þeirri breytingu eru neytendur enn útsettari fyrir afskiptum lögreglunnar en áður, minna tilefni (ekki rökstuddan grun heldur bara grun) þarf en áður til þess að aðferðum á borð við skyggingu (að eltast við fólk eða vakta staði) sé beitt á þá. Þetta kemur frá sama dómsmálaráðherra og hafði áður sagt að það væri svo mikið mál að skilgreina neysluskammta að það yrði að gera það í lögum en ekki reglugerð. Í stað þess að senda þau skilaboð til lögreglunnar að láta neytendur í friði er henni þannig veitt frekara skotleyfi á þá.

Snarrótin vill hvetja þingmenn til að standa fyrir máli sínu og fjölmiðla til að draga þá til ábyrgðar á sínum ákvörðunum. Nú styttist í þingkosningar og svikum á borð við þessi má ekki moka undir teppið heldur er þvert á móti mikilvægt að halda þeim til haga. Hvað hyggst þingheimur svo gera á næsta kjörtímabili og af hverju í ósköpunum ætti nokkur að treysta honum framar þegar kemur að þessum málaflokki?

Um er að ræða algjört rof á trausti og það mun taka mikla vinnu að byggja það upp aftur – hafi þingmenn þá einhvern áhuga á því á annað borð.

 

Fréttabréf Snarrótarinnar

Skráðu þig á póstlistann og fáðu fréttir og tilkynningar um viðburði.

Netfangið þitt er trúnaðarmál og er ekki gefið öðrum. Þú getur skráð þig af listanum hvenær sem er.