Fréttaskýringaþátturinn Kompás hefur fjallað ítarlega um dauðsfall Heklu Lindar Jónsdóttur, ungrar konu sem lést í átökum við lögreglu sem kölluð var á vettvang í kjölfar þess að vinur hennar hringdi á Neyðarlínuna til að biðja um sjúkrabíl handa henni, þar sem hún var í geðrofsástandi.

Snarrótin – samtök um skaðaminnkun og mannréttindi vill koma eftirfarandi atriðum á framfæri út frá þeirri umfjöllun.

Að kalla lögreglu eina á vettvang til að eiga við manneskju í geðrofsástandi geta ekki talist ásættanleg vinnubrögð, sér í lagi þegar manneskjan er ekkert að brjóta af sér og verkefnið snýst fyrst og fremst um að reyna að róa hana niður. Þekking heilbrigðisstarfsfólks á ástandi af þessu tagi er lykilþáttur í að tryggja öryggi allra á vettvangi og andleg veikindi ættu alltaf sem önnur veikindi að vera meðhöndluð sem heilbrigðismál.

Út frá málsgögnum, þar með talið framburði lögregluþjóna á vettvangi, er ljóst og óumdeilt að aðfarir lögreglu snerust meðal annars um að leggja Heklu Lind á magann og styðja hné á herðablaðasvæði hennar. Þvinguð lega á maga auk þrýstings á bak er þekktur áhættuþáttur þegar reynt er að taka niður og skorða æsta manneskju. Vitað er að slíkar aðferðir geta aukið líkur á dauðsfalli, þar sem þrengt er að öndun manneskjunnar. Allt of mörg dæmi eru um að það hafi gerst og dæmin finnast um allan heim. Þessar aðferðir eru hins vegar engan veginn nauðsynlegur liður í því að þvinga manneskju til að vera kyrr og tryggja öryggi á vettvangi. Það starfsfólk geðdeildar sem sinnir verkefnum sem geta krafist þess að beita skjólstæðinga deildanna líkamlegum þvingunum fær sérstaka þjálfun í að notast við aðferðir sem draga úr áhættu af þessu tagi – þær eru til og þekkingarleysi á þeim er ekki afsökun.

Snarrótin hvetur því Neyðarlínu til þess að endurskoða verkferla þannig að tryggt sé að lögregla sé ekki send ein á vettvang þegar vitað er að eiga þarf við manneskju í geðrofsástandi eða öðru ástandi þar sem augljóst er að þekking heilbrigðisstarfsfólks eykur líkur á því að hægt sé að eiga við aðstæður á vettvangi á farsælan hátt – eða er jafnvel bráðsnauðsynleg til að tryggja öryggi fólks og ásættanlega niðurstöðu útkalls. Líta þarf á veikt fólk sem skjólstæðinga heilbrigðiskerfisins fyrst en viðfangefni lögreglu síðast. Lögregla mæti heilbrigðisstarfsfólki til stuðnings en aldrei ein síns liðs. Jafnframt er lögreglan hvött til þess að endurskoða þá þjálfun sem lögregluþjónar fá í því að eiga við fólk í slíku ástandi. Ef nauðsynlegt er að kalla til lögreglu til að hafa afskipti af veiku fólki á annað borð er það því beinlínis lífsnauðsynlegt að lögregla hafi fengið viðeigandi þjálfun í að takast á við aðstæður.

Það er hins vegar algjörlega óásættanlegt ef það á að vera niðurstaða yfirferðar á því hvað dró Heklu Lind Jónsdóttur til dauða að það þurfi engu að breyta og að ekkert sé hægt að læra af málinu. Það væri augljóslega kolröng ályktun og ábyrgðarlaus. Eitt dauðsfall af þessu tagi er einu allt of mikið.

Fréttabréf Snarrótarinnar

Skráðu þig á póstlistann og fáðu fréttir og tilkynningar um viðburði.

Netfangið þitt er trúnaðarmál og er ekki gefið öðrum. Þú getur skráð þig af listanum hvenær sem er.