Þann 20. september 2018 bárust fréttir af því að borgarráð Reykjavíkurborgar hafi ákveðið að veita heimild upp á allt að 450 milljón kr. til kaupa á smáhýsum fyrir skjólstæðinga velferðarsviðs. Stefna borgarinnar er að tryggja mismunandi búsetuúrræði sem henta fjölbreyttum hópum fólks og eru færanleg smáhús liður í því. Unnið er eftir svokallaðri „Húsnæði fyrst“ hugmyndafræði þar sem allt fólk á rétt á húsnæði og ekki er talið rétt að neita fólki um húsnæði þó það glími við heimilisleysi eða eigi til að mynda við vímuefnavanda að stríða. Fallið hefur verið frá úreltum hugmyndum um að hægt sé að neyða fólk til að verða vímuefnalaust með því að úthýsa því úr mannlegu samfélagi og gera líf þeirra enn erfiðara, við hefur tekið mannúðlegri stefna þar sem því er sýndur skilningur að fólk sem á hvergi höfði að halla er heldur ólíklegt til að hafa tök á því að gera miklar breytingar á lífi sínu.

Þessi hugmyndafræði hefur fengið þverpólitískan stuðning innan borgarkerfisins og þannig voru kaupin á smáhúsunum alls ekki umdeild ráðstöfun. Þá tekur hins vegar næsta verkefni við, sem er að finna þessum smáhýsum stað í borginni og þá vandast málin. Þar er að ýmsu að huga, landið þarf að vera í eigu borgarinnar, svæðið þarf að henta tilvonandi íbúum smáhúsanna og svo þarf oftast að fara í formlegt ferli sem er breyting á deiliskipulagi. Í því ferli er hverjum sem er frjálst að senda inn athugasemdir sem taka þarf tillit til og eru þær líka birtar opinberlega. Þannig dregur þetta ferli fram þá orðræðu sem er í gangi um smáhýsabúana og er hún alls ekki alltaf falleg. Nú síðast fjallaði Morgunblaðið um athugasemdir vegna fyrirhugaðra smáhýsa við Stórhöfða en þar segir; „Skemmst er frá að segja að all­ar um­sagn­irn­ar nema ein voru nei­kvæðar. Íbúar í ná­grenn­inu telja að áformin komi niður á notk­un á vin­sæl­um göngu­stíg meðfram Stór­höfða en fast­eigna­eig­end­ur telja að þau rýri verðgildi eigna sinna og trufli starf­semi fyr­ir­tækja.“

Snarrótin lýsir yfir djúpum áhyggjum af þessari orðræðu og kallar eftir hugrekki kjörinna fulltrúa, fjölmiðla og almennings til að standa gegn henni. Tal um að heimilislaust fólk beinlínis rýri verðgildi eigna með nærveru sinni þegar það kemst í húsaskjól er hryllilega afmennskandi og myndi ekki að nokkru leyti líðast um nokkurn annan hóp fólks í samfélaginu. Hvar er svo rödd heimilislausra einstaklinga sjálfra og þeirra sem þekkja stöðu þessa hóps? Hér er ekki verið að tala um einhverjar tölur í Excel-skjali rekstraraðila heldur fólk af holdi og blóði sem þarf aðstoð við sínu heimilisleysi. Fólk hefur sinn tilverurétt og allir þurfa öruggan stað. Fordómar eru best upprættir með samtali og fræðslu og það er algjörlega ólíðandi ef neikvæðar athugasemdir um deiliskipulagsgerð eiga að stýra orðræðunni alfarið.

Alvöru samfélagslegu verðmætin eru ekki í þeim peningum sem er varið í að kaupa húsnæði heldur í viðhorfunum til fólksins sem býr í því. Ræktum þau viðhorf saman – stöndum með heimilislausum einstaklingum og bjóðum þau velkomin heim til sín.

Fréttabréf Snarrótarinnar

Skráðu þig á póstlistann og fáðu fréttir og tilkynningar um viðburði.

Netfangið þitt er trúnaðarmál og er ekki gefið öðrum. Þú getur skráð þig af listanum hvenær sem er.