Fulltrúar Snarrótarinnar færðu þingmönnum snemmbúna jólabók á Alþingi í dag.
Allir 63 þingmenn fengu sérstaklega áritað eintak frá Snarrótinni af bókinni Að hundelta ópið: Upphaf og endir fíknistríðsins eftir Johann Hari sem er nýútkomin í íslenskri þýðingu Halldórs Árnasonar. Í bókinni rekur höfundur upphaf og þróun glæpavæðingar vímuefna – hins svokallaða fíknistríðs – og þann mannlega harmleik sem hún hefur haft í för með sér. Óhætt er að segja að Hari tæti í sig margar af forsendunum sem þessi stefna er byggð á og þannig leggur hann grundvöllinn að nýrri nálgun, þeirri sem Snarrótin hefur barist fyrir allt frá stofnun, mannúðlegri vímuefnastefnu sem byggist á skaðaminnkun og gagnreyndum aðferðum.
Johann Hari var staddur hérlendis í þarsíðustu viku til að flytja fyrirlestra um efni bókarinnar og fagna íslensku útgáfunni og var af því tilefni tekið viðtal við hann í Víglínunni á Stöð 2, þar sem dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, var spurð álits á efni bókarinnar og var hún afdráttarlaus í svörum sínum: „Bannstefnan hefur einfaldlega ekki virkað“.
Snarrótinni þótti því vel við hæfi að færa þingmönnum bókina, ekki síst þar sem nú er til umfjöllunar í velferðarnefnd Alþingis frumvarp til laga sem ætlað er að gera vörslu á neysluskömmtum vímuefna refsilausa. Snarrótin hefur veitt frumvarpinu jákvæða umsögn og fulltrúar hennar mætt á fund velferðarnefndar til að fylgja þeirri umsögn eftir en framhaldið er síðan í höndum þingmanna – sem og bókin.